136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna.

[13:39]
Horfa

Jón Magnússon (U):

Virðulegi forseti. Mér finnst ýmis ummæli ráðamanna að undanförnu ekki hafa verið til þess fallin að styrkja fjármála- eða bankakerfið heldur þvert á móti. Svo illa hefur farið að jafnvel tveir af okkar virtustu bankamönnum, sem hafa verið stjórnarformenn Nýja Glitnis og Kaupþings, sáu sig tilknúna að segja af sér í gær. Þeir voru beðnir að gegna störfum sínum áfram en það sýnir hvernig ástandið er. Á sama tíma má lesa það vítt og breitt um veröldina að forseti lýðveldisins sé að gefa yfirlýsingar með ákveðnum hætti sem er ekki í hans verkahring að gera. Allt er þetta til þess fallið að draga úr tiltrú annarra þjóða á því með hvaða hætti Íslendingar geti komist út úr vandanum og mótað eðlilega banka- og fjármálastarfsemi að nýju.

Mér finnst það mjög óviðeigandi hvernig ráðamenn, ríkisstjórn og forseti lýðveldisins, hafa komið fram hvað þetta varðar að undanförnu og það hefur að mínu viti orðið til mikils skaða. Ég ætlast ekki til þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, geti svarað fyrir það eða borið ábyrgð á því. En þetta er hins vegar grafalvarlegt mál sem nauðsynlegt er að vekja athygli á. Það er nauðsynlegt að bankarnir geti starfað með eðlilegum hætti, veitt þá fyrirgreiðslu sem þarf til að atvinnulífið í landinu stöðvist ekki, að við fáum stýrivexti sem séu sambærilegir því sem gerist í löndum þar sem ástand er svipað og hér eins og í Bretlandi þar sem stýrivextir eru 1% og við komum í veg fyrir að verðtryggingin æði áfram og éti upp eignir fólksins í landinu.