136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:50]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þingmanns þá liggur fyrir að sú staða sem hann gagnrýndi að hefði verið auglýst var auglýst af fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen. Það var hann sem auglýsti starfið og því finnst mér ekki sanngjarnt að samflokksmaður hans skuli veitast að honum núna. (Gripið fram í.)

En meginatriðið er þetta: Bankarnir þurfa að fara að vinna í þágu heimilanna og í þágu fyrirtækjanna. Það er það sem skiptir máli að það sé festa og að þeir vinni samkvæmt þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setur.

Það hefur tekið tíma að byggja þetta upp. Við vorum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en því miður treysti hann sér ekki til að taka ákvarðanir í þessu frekar en í nokkru öðru og því varð að leita á önnur mið. [Hlátrasköll og hávaði í þingsal.] Það varð að kalla til verka fólk sem treysti sér til þess að taka (Forseti hringir.) ákvarðanir.

(Forseti (KÓ): Hljóð í salnum.)

Það varð að kalla til leiks nýtt fólk. Það er það sem er verið að gera núna. Í dag og í morgun verða kynntar hugmyndir um hvernig menn sjá bankana fyrir sér til lengri tíma. Ég trúi því og treysti að þær hugmyndir sem þar koma fram verði til þess fallnar að tryggja hér öflugt og sterkt bankakerfi sem kemur til með að vinna fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er það sem við viljum gera en ekki, hv. þingmaður, skapa óþarfa upplausn í umræðum um þessi mál þegar verið er að vinna að þeim af festu og einurð. (Gripið fram í.)