136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að bera upp við formann utanríkismálanefndar stöðu viðræðna vegna samninga stjórnvalda um innstæður í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Eins og við vitum öll þá afgreiddi þingið fyrir skömmu þingsályktunartillögu um efnið og þingið hefur viljað fylgjast mjög vel með framgangi viðræðnanna. En hingað til hafa ekki komið miklar vísbendingar um að tekið yrði mikið tillit til þeirra aðstæðna sem risið hafa á Íslandi en voru af hálfu þingsins forsenda fyrir því að farið var í viðræður um þessi mál.

Við vitum öll að hér skipta mestu innstæðurnar í Landsbankanum vegna þess að það liggur fyrir að bæði hjá Kaupþingi og Glitni munu allar innstæður greiðast til baka. En hjá Landsbankanum er annað upp á teningnum og þar er um mjög stórar fjárhæðir að tefla.

Það sem gefur mér tilefni til að koma hér upp er að við höfum ekki fengið nýlega í þinginu upplýsingar um stöðu málsins. Það er í fyrsta lagi. Í öðru lagi er auðvitað komin ný ríkisstjórn með stuðningi Framsóknar, hverrar formaður er einn af forvígismönnum „Indefence“-hópsins sem sérstaklega var á móti því að gengið yrði til þessara samninga. En auðvitað líka með aðild Vinstri grænna sem hafa talað mjög sterkt gegn þessu máli og þessum viðræðum í heild sinni.

Í meðförum þingsins kom fram í nefndaráliti frá fulltrúa Vinstri grænna að hann taldi að hér væri um að ræða samninga sem væru ógildanlegir og jafnvel ólöglegir. Það var lagt til að þessi samningaleið yrði ekki farin. Maður hlýtur því að spyrja sig ef ríkisstjórnin starfar í skjóli bæði Framsóknar og Vinstri grænna hvort það standi til að taka upp viðræðurnar að nýju.

Formaður Vinstri grænna hefur skrifað lærða grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsir því hvers konar hörmungarganga þetta allt saman hafi verið, að ganga til samninganna. Við hljótum því að vilja fá upplýsingar (Forseti hringir.) um hvernig málið stendur. Auk þess sem ég vil segja rétt í lokin að hin (Forseti hringir.) nýja staða hjá Landsbankanum í tilefni af gjaldþroti eins af stærstu skuldurum bankans hlýtur að gefa okkur tilefni til (Forseti hringir.) þess að meta að nýju efnahagsreikning gamla Landsbankans.