136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er engin spurning að eitt mikilvægasta verkefni nútímans er að endurreisa bankana. Við vitum öll að atvinnulífið getur ekki án skilvirks bankakerfis verið og gangi endurreisn þeirra ekki hratt og vel fyrir sig mun það hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið.

Ég óttast að þær breytingar sem nú hafa verið kynntar, uppsagnir formanna bankaráða Glitnis og Kaupþings og þær hrókeringar sem uppi hafa verið sem ríkisstjórnin stendur fyrir muni slá þeirri endurreisn á frest. Það segir sig auðvitað sjálft að þegar glænýtt fólk kemur inn í bankana til þess að reisa þá við mun það þurfa sinn tíma til þess að marka nýja stefnu. Það eru því alvarlegir tímar fram undan í þessu. Ég óttast að allar þessar aðgerðir slái endurreisn bankanna á frest og sá tími sem líða mun getur orðið dýrkeyptur fyrir fólkið í landinu og atvinnulífið.

Hins vegar varðandi Icesave verð ég að segja að það veldur miklum vonbrigðum að ríkisstjórnin hafi ekki kynnt nein áform varðandi það mál. Ég hefði talið að hæstv. nýr utanríkisráðherra þyrfti að endurskoða stefnumótun og aðgerðir vegna biðlunar til breskra stjórnvalda vegna uppgjörs á Icesave-reikningunum. Í því máli verður að verjast af fullri hörku, jafnvel með liðsinni erlendra sérfræðinga. Ég tel að það sé ekki valkostur að skuldbinda íslenska ríkið og kynslóðir framtíðarinnar um allt að 700 milljarða kr. Undir slíkri skuldsetningu munu kynslóðir framtíðarinnar ekki geta staðið og við verðum að koma í veg fyrir það.

Icesave-málið á eftir að koma aftur til umfjöllunar í þinginu þegar við ræðum heimildir ríkisstjórnarinnar til að skuldbinda ríkissjóð. En ég óttast mjög linkind ríkisstjórnarinnar gagnvart breskum stjórnvöldum. Linkind [Hlátrasköll og hávaði í þingsal.] Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem ég hef fylgst með, vera í forræði (Forseti hringir.) um þetta mál vegna þess að í þeim samningaviðræðum hefur hún ekki viljað styggja vini sína í ESB (Forseti hringir.) af ótta við að það muni koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að Ísland geti sótt um aðild að Evrópusambandinu, því miður.