136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað fullkomið hneyksli að hlusta á sjálfstæðismenn í þessari umræðu. Hér kom inn mál, þingsályktunartillaga frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, um Icesave-ábyrgðirnar. Það mál fór inn í utanríkisnefnd Alþingis þar sem hv. þm. Bjarni Benediktsson barði það í gegn. Og hvað stóð í því máli? Það stóð að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið væri betur borgið með því að borga þessar ábyrgðir (SKS: Kjaftæði) sem eru yfir 600 milljarðar kr. (Gripið fram í.) Það stóð í þessu máli. Og lesið þið bara þingsályktunartillöguna. (Gripið fram í: … á nefndarálitinu.) Það voru þrjú viðmið sem átti að fara eftir. Þetta var hamrað hér í gegn.

Það er hins vegar alveg rétt að þegar búið er að semja — og það er ekki búið og hefur tekið um þrjá mánuði og við verðum auðvitað að fá upplýsingar um það hvar þessir samningar standa. Ég hef beðið um að hæstv. utanríkisráðherra komi til utanríkisnefndar og upplýsi okkur. Ég hef líka beðið um skriflegt svar við hagsmunamati Íslands af því hvernig fari fyrir okkur ef við borgum þetta. Og hvernig fer fyrir okkur ef við borgum þetta ekki og segjum bara að við getum það ekki?

En það er svo fullkomlega óeðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn komi hér núna og spyrji: Á að taka þetta mál upp að nýju? Og spyrji svo hvort það eigi fara að endurskoða þetta. (SKS: Mér finnst þetta …) Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því með Samfylkingunni að samþykkja að borga þessar ábyrgðir. (Gripið fram í: Nei.) Það var í þingsályktunartillögunni sem fór hér í gegn. Þar greidduð þið atkvæði með því og það var pólitískt mat Sjálfstæðisflokksins að það þyrfti að samþykkja að greiða þessar ábyrgðir, m.a. til þess að fá lánið hjá IMF. (Gripið fram í.) Þannig að ef sjálfstæðismenn eru búnir að gleyma þessu þá hafa þeir ekki einu sinni gullfiskaminni, (Forseti hringir.) hæstv. forseti.