136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:11]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu þó að það sé auðvitað ekki einungis í verkahring hæstv. umhverfisráðherra að annast atvinnuuppbyggingu og uppbyggingu atvinnutækifæra. Það er öll ríkisstjórnin sem tekur það verkefni að sér þann stutta tíma sem þessi ríkisstjórn kemur til með að sitja við völd, þ.e. fram að kosningum 25. apríl. Ég get lofað hv. þingmanni því að þessi ríkisstjórn er með atvinnuuppbyggingu úti um allt land í huga og er að skoða mjög marga og mjög fjölbreytta möguleika í þeim efnum. Ég segi fjölbreytta vegna þess að það hefur verið á stefnuskrá minni og míns flokks að horfa vítt yfir sviðið til allra atvinnuþátta, til allra mögulegra atvinnutækifæra frekar en að einbeita sér að einum geira í þeim efnum, álverunum.

Sjónarmið mín í þessum málaflokki eiga auðvitað ekki að koma hv. þingmanni eða öðrum þingmönnum hér í sal á óvart. Ég hefði sjálf kosið að komast í ríkisstjórn undir öðrum kringumstæðum en raun ber vitni en maður kýs ekki alltaf tímann eða stundina. Sú ríkisstjórn sem nú starfar er bundin af ákveðnum gjörðum fyrri ríkisstjórnar. Varðandi álver á Bakka er í gildi viljayfirlýsing sem rennur út í september. Álframleiðandinn Alcoa sem á aðild að þeirri yfirlýsingu hefur hins vegar ákveðið að hægja á öllum framkvæmdum. Þess vegna hafa orkufyrirtækin fengið heimildir til að leita á önnur mið eftir orkukaupendum. Þau hafa m.a. verið í einhverjum viðræðum við þá aðila sem hv. þingmaður nefndi, aðila sem hafa hug á að byggja kísilflöguverksmiðju.

Þessi ríkisstjórn kemur til með að afhenda umboð sitt nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Það er löngu áður en viljayfirlýsingin rennur út. Ég er sjálf sem þingmaður bundin af þeim sjónarmiðum sem kjósendur mínir lögðu til grundvallar kjöri mínu. Þau sjónarmið eru hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og uppbygging fjölbreyttra atvinnutækifæra vítt og breitt um landið. Við þau mun ég standa því að það er hluti af minni framtíðarsýn. Ég vil segja það að umhverfisráðuneytið hefur ekki komið að gerð þessarar viljayfirlýsingar sem ég nefndi eða samninga sem lúta að verkefninu á Bakka og þar af leiðandi hef ég ekki kunnáttu til að svara tæknilegum atriðum sem varða þau mál. Þær upplýsingar liggja í iðnaðarráðuneytinu.

Eftir að Alcoa hægði á framkvæmdum sínum, eins og ég sagði áðan, hafa orkuframleiðendurnir róið á önnur mið. Nefnd var kísilflöguverksmiðja og hv. þingmaður nefndi losunarmálin. Þar erum við komin að virkilega stóru máli, þröskuldi, eflaust vegg í þessum efnum, og við getum ekki annað en horfst í augu við þær staðreyndir. Síðasta ríkisstjórn samþykkti og lagði áherslu á það í undirbúningsviðræðum að nýjum loftslagssamningi að það bæri að stefna að því að halda aukningu hlýnunar í lofthjúpi jarðar innan við 2°C frá því sem verið hefði fyrir iðnbyltingu og að öll iðnríkin og stærstu þróunarríkin yrðu að vera með í skuldbindingum fyrir nýjan loftslagssamning. Undir þessi markmið fyrri ríkisstjórnar hef ég tekið og ég lýsti stuðningi við það markmið þeirrar ríkisstjórnar að við ættum að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% á tímabilinu til 2050.

Þetta er gríðarlegt verkefni sem við þurfum að takast á við. Það gerum við ekki með frekari uppbyggingu álvera. Það gerum við þvert á móti með því að fara í þann iðnað sem losar minna. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að reyna að standa við þau markmið sem loftslagssamningurinn setur okkur og við vitum að Kyoto-bókunin sem gaf okkur ákveðið svigrúm, 1.600 þús. tonna losun á ári að meðaltali á tímabilinu til 2012, er með þeim hætti að ekki verður hlaupið að því að endurnýja hana, þ.e. fá einhverja aukningu frá því sem við höfum fram til 2012. Við skulum vera algerlega raunsæ í þeim efnum. (ÓN: Stjórnvöld hafa ekki rætt um það.) Stjórnvöld eru núna við samningaborðið. Það hafa verið haldnir fundir um verkefni samningsins. Það eru fleiri fundir á döfinni og í lok árs 2009 komum við til með að standa frammi fyrir þeirri staðreynd í Kaupmannahöfn að mínu mati, hún liggur ekki á borðinu í dag en hins vegar tel ég að niðurstaðan verði sú að þessi ríku lönd sem við teljumst til þrátt fyrir allt þurfi að taka á sig (Forseti hringir.) verulegar skuldbindingar varðandi samdrátt. Og álverin okkar þurfa að gera það alveg eins og álverin í Evrópu.