136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðunni og þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hefja hana. Það skýtur samt svolítið skökku við að sjálfstæðismenn standi fyrir henni, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdir við álverið á Bakka væru í fullum gangi ef sjálfstæðismenn hefðu staðið í lappirnar. (Gripið fram í: Er það?) Ég segi að það sé fyrst og fremst lýðskrum (Gripið fram í: Ekki …) að halda því fram að sjálfstæðismenn ætli að fylgja þessu verkefni eftir þegar þeir höfðu öll úrræði til að sjá til þess að framkvæmdir tefðust ekki.

Hvar voru sjálfstæðismenn þegar hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra kvað upp úrskurð sem ekki var bara augljóst (Gripið fram í.) að mundi leggja stein í götu verkefnisins heldur braut líka lög og reglur eins og umboðsmaður Alþingis hefur nú staðfest? (Gripið fram í: … umhverfisráðherrann?) Stjórnvöld verða að leggjast á eitt með heimamönnum til að atvinnuuppbyggingin þarna eigi sér stað. Ég tek það fram að verkefnið er sjálfbært samfélag á Húsavík þannig að ég er ósáttur við að heyra hæstv. umhverfisráðherra halda því fram að hér sé ekki um sjálfbæra þróun að ræða.

Auðvitað eigum við að skoða með opnum hug öll áform um kísilflöguverksmiðju, við eigum að skoða kosti og galla. En ef það er þannig að það mengi þrisvar sinnum meira á hvert framleitt tonn en hjá álveri þurfum við kannski aðeins að staldra við.

Verkefnið snýst fyrst og fremst um atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu á svæði þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi í mörg ár og ég held að það sé alveg ljóst að heimamenn (Forseti hringir.) eigi fullan rétt á því að nýta orkuna í heimahéraði til uppbyggingar (Forseti hringir.) þeim til hagsbóta.