136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:21]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það er deginum ljósara að ætli íslensk þjóð að komast út úr þeirri kreppu sem hafin er og mun fyrirsjáanlega standa þó nokkurn tíma verðum við að nýta auðlindir lands og sjávar eins og kostur er. Við verðum að nýta öll tækifæri sem mögulegt er að hafa hendur á til að skapa atvinnu fyrir fólkið í landinu, til að skapa tekjur sem hægt er síðan að nota til að halda uppi lífskjörum hér á landi. Atvinnustefnan er lykillinn að því að komast úr þeim efnahagsþrengingum sem við erum í og munum verða í á komandi árum. Þess vegna er eðlilegt að hér sé tekið upp það mál og spurt um afstöðu ríkisstjórnarinnar til atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum. Ég styð það heils hugar og tel eðlilegt og sjálfsagt að hið opinbera beiti sér fyrir sams konar fyrirgreiðslu þar eins og gert var annars staðar á landinu, bæði á Austurlandi og við Faxaflóa, fyrir atbeina hins opinbera með ívilnun á opinberum gjöldum. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt, og það er eðlilegt að samið sé um sölu á raforku. Þótt e.t.v. sú um að ræða tap á sölunni í einhvern skamman tíma skiptir öllu ef samningurinn í heild gefur af sér hagnað þannig að störfin séu trygg og þjóðfélagið njóti góðs af uppbyggingunni. Þannig eigum við að vinna, virðulegur forseti.

Ég hlýt að benda á það sem blasir við, að hv. fyrirspyrjandi beinir máli sínu til ríkisstjórnarinnar þar sem annar flokkurinn er á móti þessari atvinnuuppbyggingu. Það liggur alveg fyrir. Og hinn flokkurinn er hálfur á móti henni. Það var hinn flokkurinn sem kom í veg fyrir frekari framgang málsins en orðið er og það sem líka liggur fyrir, virðulegi forseti, er að þessir sömu flokkar ætla að starfa áfram eftir komandi alþingiskosningar (Forseti hringir.) með stuðningi þess flokks sem veitir stjórninni hlutleysi þannig að kjósendur hljóta að spyrja (Forseti hringir.) þessa flokka: Ætlið þið að styðja áfram nei-stefnuna í atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) í Þingeyjarsýslum?