136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:30]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er ágætisumræða í sjálfu sér þó hún kannski þjóni ekki mjög miklum tilgangi vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr situr í mjög skamman tíma og þó svo Vinstri grænir vildu (Gripið fram í.) stoppa þessa framkvæmd á Bakka þá eiga þeir ekki nokkra möguleika á því (Gripið fram í.) og það er í rauninni ágætismál að mínu mati.

En af því að búið er að tala hér um viljayfirlýsingu þá var sú upphaflega frá 16. maí 2006. Þá sagði formaður Vinstri grænna, núna hæstv. fjármálaráðherra, að það væri hneyksli aldarinnar þegar sú sem hér stendur skrifaði undir þá viljayfirlýsingu. Það var ekkert annað en það þannig að það er alveg óhætt að efast um að það náist árangur í þessum efnum með Vinstri græna í ríkisstjórn. Engu að síður lýsi ég ánægju með það að hæstv. umhverfisráðherra sagði alla vega ekki í ræðu sinni áðan að það ætti að reyna að stoppa þessa framkvæmd og ég trúi því að það verði ekki reynt. Nú er Samfylkingin orðin bara ekta stóriðjuflokkur og þá fer þetta allt að koma. Þetta er mikill árangur finnst mér sem framsóknarmanni. (Gripið fram í.)

Ég fór að skoða samþykktir Sjálfstæðisflokksins sem hefur þessa umræðu frá síðasta landsfundi og vita hvernig þær hefðu verið því mig minnti endilega að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið svolítið í feluleik fyrir kosningar og það er rétt. Þannig var það. Þar segir í fyrsta lagi:

„Landsfundurinn telur brýnt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda“, og svo segir í öðru lagi: „Þær stóriðjur sem risið hafa á síðustu árum hafa og munu skila miklu til þjóðarinnar“, en ekki er eitt orð um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn vilji halda áfram að byggja upp stóriðju á (Gripið fram í.) Íslandi. Þeir þorðu ekki ... (Gripið fram í.) Ég las þetta allt í gegn. En Sjálfstæðisflokkurinn passaði sig fyrir kosningar (Forseti hringir.) að segja ekki of mikið. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn sagði hins vegar: „Árangur áfram. Ekkert stopp.“