136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:32]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Atvinnumál og atvinnuuppbygging er stóra málið og á það þurfum við að leggja áherslu á öllum sviðum hvort sem það er norður í landi eða annars staðar. Við eigum að sameinast um að búa til gjaldeyristekjur og skapa störf. Um það á þetta að snúast og við verðum að nýta þessa auðlind sem og aðrar auðlindir, þ.e. orkuna í iðrum jarðar þarna fyrir norðan og við verðum að halda áfram að virkja fallvötnin.

Við í Frjálslynda flokknum styðjum atvinnuuppbyggingu á Bakka, álversframkvæmdir þar og virkjanaframkvæmdir fyrir norðan og alls staðar annars staðar í landinu. Það er engin spurning um það. Ég vona að hæstv. iðnaðarráðherra og hans viska og (Gripið fram í.) skörungsháttur á alla kanta, hans gæði á öllum sviðum (Gripið fram í.) komi í ljós þegar fram líða stundir og hann muni standa vörð um að framkvæmdir verði í alvöru þarna fyrir norðan sem og annars staðar í landinu og hann láti ekki deigan síga og byggi upp. Hann hefur margsýnt að hann er (Gripið fram í.) góðviljaður maður og hugrakkur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur (Gripið fram í.) og ég hvet hann enn og aftur til dáða og (Gripið fram í.) hef mikla trú á honum til að láta verkin tala bæði norður í landi sem og annars staðar. (Gripið fram í.) Vonandi á hann eftir að verða fyrsti olíumálaráðherra þjóðarinnar (Gripið fram í.) og ég dreg það ekki í efa að þessi ágæti hæstv. ráðherra mun beita sér af miklu kappi í þessu. Ég trúi því að hann geti gert það og komi í veg fyrir að þessi ríkisstjórn verði kölluð (Forseti hringir.) hundasúruríkisstjórn í framtíðinni. (Gripið fram í.)