136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:37]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal er mjög mikill talsmaður stóriðju á Alþingi. Ég er hins vegar mjög sterkur talsmaður náttúruverndar og annarrar atvinnuuppbyggingar en stóriðju. Þetta veit alþjóð. Þetta vitum við hv. þingmaður. Við getum hins vegar algerlega sameinast í því að það þurfi að taka til hendinni í atvinnumálunum og að það þurfi að gera róttækar breytingar í atvinnuuppbyggingu og það þarf að gera strax. Ég trúi því að við hv. þingmenn getum staðið saman um góð verkefni til atvinnuuppbyggingar hvort sem það er í Þingeyjarsýslum eða annars staðar í landinu. Við erum hins vegar ósammála um leiðirnar. Það er algerlega ljóst.

Núna ári eftir að Kárahnjúkavirkjun tók til starfa á hún í fyrirsjáanlegri framtíð, kannski bara á næsta ári, eftir að skila tapi, kannski ekki bara tímabundið, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, kannski bara í langan tíma og efnahagslífið okkar (Gripið fram í.) er í þessum töluðu orðum eins og við öll vitum í rúst. Við vitum að fyrirtæki á Austurlandi standa mörg hver mjög veikt, (Gripið fram í.) sum þeirra jafnvel farin á hausinn. (Gripið fram í.) Við vitum að 300 tómar íbúðir í fjórðungnum eru til sölu. Hvað er það svo (Gripið fram í.) sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja í þessum efnum? Á hvað er kallað? (Gripið fram í: Virkja.) Tvær Kárahnjúkavirkjanir til viðbótar? (Gripið fram í: Virkja.) Ha? Tvær Kárahnjúkavirkjanir (Gripið fram í.) sem yrðu jafnilla staddar og sú sem við erum með núna eftir örfá ár, 300 milljarðar í auknar skuldir, (Gripið fram í: Hvað annað þá?) 300 milljarðar. (Gripið fram í.) Og álverðið ... (Gripið fram í: Hvalveiðar?) Hæstv. forseti. Það er ekki orðinn vinnufriður í þessum þingsal. (Gripið fram í: Ha!) Ég krefst þess (Gripið fram í.) að fá að hafa orðið þegar ég kem í ræðustól Alþingis og ég tek ... (Gripið fram í.)

(Forseti (KÓ): Forseti fer fram á að það verði hljóð í salnum.)

Þessi hv. þingmaður fer fram á að fá að tala 30 sekúndum lengur en klukkan segir til um. Það er þannig að Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði gerði ekki það kraftaverk sem sú ríkisstjórn eða þær ríkisstjórnir sem komu því á laggirnar vonuðust til. Þess vegna finnst mér (Gripið fram í.) liggja á borðinu að við eigum að fara aðrar leiðir í atvinnuuppbyggingu og bendi í því sambandi á allar þær (Forseti hringir.) hugmyndir sem við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – (Forseti hringir.) græns framboðs höfum lagt til málanna í þeim efnum. Ég minni líka á loftslagssamninginn og skuldbindingar okkar í þeim efnum. Við erum bundin (Forseti hringir.) af þeim samningi.