136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

útflutningur hvalafurða.

284. mál
[14:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þegar Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, núverandi hv. þingmaður á þinginu, tilkynnti um ákvörðun sína korteri áður en hann gekk út úr sjávarútvegsráðuneytinu um að hefja á ný hvalveiðar, langreyðaveiðar miklar, fyrir fimm ár fram yfir tíma ekki bara þessarar ríkisstjórnar heldur líka næstu ríkisstjórnar þá var svo látið að þetta mundi geta skapað strax 200–300 störf á Íslandi og þar með slegið eitthvað á það atvinnuleysi sem hér er að rísa og er mikill skaðvaldur í samfélaginu.

Við þá athugun sem núverandi hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála hefur hafið á þessari ákvörðun og á hvalveiðum almennt og kostum þeirra og göllum er mikilvægt að byrja á þeim þætti málsins sem heitir sala afurða í útlöndum og finna út hverjar gætu verið sölutekjur af því hvalkjöti, af þeim hluta, sem reyndar er tiltölulega lítill, hvers hvals sem til markaðar berst. En það er aðeins einn markaður fyrir þetta í heiminum og það er Japansmarkaður, sé hann yfir höfuð opinn.

Nú er hægt að nýta þetta færi, það færi sem gefst til þessa með því að fréttir bárust um það í sumar leið að selst hefðu 63 tonn af langreyðarkjöti á vegum Hvals hf. og Kristjáns Loftssonar aðaleiganda þess fyrirtækis. Þess vegna er upplagt að byrja á því, af því að upplýsingar um hvalveiðar og sölu hvalafurða eru fremur tregfáanlegar, að athuga hverjar hafi verið gjaldeyristekjur Íslendinga af þessari sölu. Þegar við höfum það þarf síðan að draga frá kostnað og það er þá næsti liður í þessu máli, bæði kostnað við veiðarnar og við rekstur þess flota sem þarf til og ýmsan annan rekstrarkostnað en ekki síst kostnað við flutning þessa kjöts sem allt er flutt í flugi. Öll þessi tonn eru nefnilega flutt í flugi vegna þess að áhættan af því að láta skip sigla með þessar afurðir er of mikil til að taka hana vegna þess að þá þyrfti skipið að sigla beint frá Íslandi alþjóðaslóðir og til Japans vegna þess að ef það kemur við í höfn sem bundin er CITES-samkomulaginu er hætt við að þetta kjöt verði gert upptækt.

Þess vegna er hér borin fram sú fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hverjar hafi verið gjaldeyristekjur af útflutningi hvalafurða árið 2008, árið í fyrra þegar þessi 63 tonn, að minnsta kosti þau munu hafa verið seld á markaði í Japan.