136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fyrir utan almennar efasemdir um að það sé nýja Íslandi til heilla að halda áfram uppbyggingu stóriðjuvera á borð við þau álver sem hér hefur verið rætt um í dag þá hef ég áhyggjur af því, sem kjördæmisþingmaður í mínu kjördæmi suðvestanlands, að það álver sem hér er um að ræða muni gleypa alla þá orku sem tiltæk er á svæðinu, alla þá orku sem tiltæk er á Reykjanesskaga og í kringum Reykjavík, á Hellisheiði og hvar annars staðar sem orku er að fá, þannig að ekkert verði eftir af orku til annarra hluta, til gagnavera, kísilflöguverksmiðja eða þeirrar stóriðju sem nú hefur opnast sýn til og er miklu þekkilegri á flesta kanta og skapar fleiri störf á hverja orkueiningu. Ég hef líka áhyggjur af því að sú orkuöflun sem hér stendur til muni ganga langt fram úr því sem við getum sætt (Forseti hringir.) okkur við í umhverfismálum, m.a. á Ölkelduhálsi (Forseti hringir.) og öðrum vinsælum útivistar- og náttúruperlum í nágrenni þeirra miklu byggða (Forseti hringir.) sem hér eru tilgreindar.