136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:08]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu. Við búum hér á Íslandi og erum í vandræðum með atvinnu. Þá segi ég: Hvernig ætlum við að bregðast við, hvernig ætlum við að komast út úr þeim erfiðleikum sem við eigum í?

Ég horfi bara til baka til áranna þegar járnblendiverksmiðjan á Grundartanga tók til starfa og álverið — hvers lags lyftistöng það var fyrir Vesturland, hvers lags lyftistöng það var fyrir Akranes. Ég mundi ekki vilja horfa í dag á alla þá sem væru atvinnulausir ef þetta hefði ekki komið til. Ég hef fengið það á mig, af hæstv. umhverfisráðherra, hvers konar barn ég væri að ég skyldi láta það út úr mér, að við á Akranesi skyldum þá ekki hafa fundið upp eitthvað annað en álver. En ég segi: Það er þvílík uppbygging fyrir samfélagið að álverið skuli hafa risið og járnblendifélagið.