136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:09]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum fyrirspurn um áform um álver í Helguvík. Ég er þeirrar skoðunar, og hef unnið að því lengi, að við Íslendingar eigum, og aldrei frekar en nú, að virkja orkuauðlindir okkar, hvort heldur er vatnsafl eða gufuafl. Nú þegar hafa verið teknar ákvarðanir hvað það varðar og við þær á auðvitað að standa.

Álverið í Helguvík skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá atvinnuuppbyggingu sem þarf nauðsynlega að eiga sér stað á Suðurnesjum. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að tryggja að sú framkvæmd megi halda áfram fólkinu þar og þjóðinni til hagsbóta inn í framtíðina.