136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

virkjun sjávarfalla við Ísland.

282. mál
[15:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að svara þeirri spurningu sem hv. þm. Herdís Þórðardóttir beindi til mín um möguleg áhrif sjávarfallavirkjana á fiskgengd. Eins og ég sagði í fyrra mínu svari eru meira en hundrað aðferðir til þess að virkja þá orku sem í sjávarföllum og bylgjum er að finna. Sumar þessara aðferða, sérstaklega þær sem menn pældu fyrst í hafa alveg örugglega áhrif á fiskgengd og geta tálmað henni. En ég held að þær aðferðir sem menn horfa mest til núna, þar sem ekki einu sinni eru mjög miklar festingar við botn heldur er orkan virkjuð með öðrum hætti með öðrum tækjum, hafi þá kosti að hafa mjög takmörkuð áhrif á lífríkið. Svo er hitt að það eru engar sjónrænar afleiðingar ef menn kjósa að fjarlægja þessar virkjanir. Það skilur ekkert eftir nema hugsanlega í augum fiskanna undir yfirborði.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þeir eiga að njóta eldanna sem fyrstir kveiktu þá. Það var ekki að ástæðulausu að þeir voru einmitt kveiktir þarna, það er vegna þess að náttúrukostir eru bestir þar. Það er framsýni þeirra sem búa á þessum stöðum. Ég man ekki betur en að í aðalskipulagi fyrir Dalabyggð sé að finna skipulagt iðnaðarsvæði undir litla sjávarfallavirkjun.

Hitt er svo að í sjálfu sér hefur verið erfitt að finna leiðir líka til að nýta raforku sem fellur til með þessum hætti. Hún hentar ekki til þess endilega að knýja fyrirtæki sem þurfa á stöðugri orkuframleiðslu að halda en hún mundi henta ákaflega vel t.d. fyrir eitt af verkefnum framtíðarinnar sem er að framleiða vetni. Það er líka hægt að hugsa sér að orkuna mætti nota með óbeinum hætti við vatnsaflsorkuframleiðslu, þ.e. að nýta hana til að dæla vatni upp í lón og nýta síðan vatnið þegar það rennur úr lóninu með jöfnum hætti. Það er ein af þeim aðferðum sem (Forseti hringir.) menn hafa líka velt fyrir sér.