136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

arðsemi álvera.

[10:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Í þeim hreinsunum sem eiga sér nú stað í stjórnkerfinu réði hæstv. fjármálaráðherra Indriða H. Þorláksson sem ráðuneytisstjóra. Sá maður hefur lýst skoðunum sínum á ýmsum málefnum og er það bara vel en það er ljóst að hann er mjög mikill skoðanabróðir hæstv. fjármálaráðherra í ýmsum efnum.

Ég kveð mér hljóðs til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þeirri skoðun ráðuneytisstjóra síns að það sé lítil efnahagslegur ávinningur af starfsemi álvera fyrir landsmenn. Ráðuneytisstjórinn fullyrti það á bloggi sínu. Þegar farið er yfir röksemdir ráðuneytisstjórans blasir að mínu mati við að hann hefur ekki skoðað heildarmyndina heldur eingöngu tekið einn stein úr stærri mósaíkmynd. Þetta er eins og að fela hagfræðingi að gera úttekt á efnahagslegum ávinningi sjávarútvegs og hagfræðingurinn fer beint í beitningaskúrinn og skoðar ekkert annað, skoðar ekki fiskvinnsluna, skoðar ekki skipin, skoðar í rauninni ekkert annað. Mig langar að draga fram nokkrar staðreyndir, herra forseti.

Alcan á Íslandi greiddi 1,4 milljarða í tekjuskatt árið 2007. Það eru um 3% af öllum tekjuskatti lögaðila til ríkisins. Öll verslun í landinu greiddi á sínum tíma 4,8 milljarða og greiddi því Straumsvík um fjórðung af öllum tekjuskatti allra verslunarfyrirtækja það ár. Við fáum um 80 milljarða í hreinar gjaldeyristekjur á ári hverju af álverum.

Ég spyr líka: Hvað þá með sérþekkingu? Hefur hún verið metin, sérþekking í orkuiðnaði, verkfræðinga og tæknifræðinga, sem byggist m.a. á reynslu og þekkingu sem hefur skapast í tengslum við stórvirkjana- og jarðboranaverkefni? Hvað með þekkingarfyrirtæki eins og HRV, Eflu, Stími, Al og fleiri sem hafa getið af sér gott alþjóðlegt orðspor?

Þegar farið er yfir allar þessar staðreyndir og það er meira hægt að draga fram eins og hvað Straumsvík hefur greitt varðandi verslun og þjónustu. Það eru 5,4 milljarðar fyrir utan orkukaup, þá er eðlilegt að maður spyrji (Forseti hringir.) hvort hæstv. fjármálaráðherra deili þeirri skoðun ráðuneytisstjóra síns að það sé lítill sem enginn efnahagslegur ávinningur af starfsemi álvera.