136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

arðsemi álvera.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég féllst á ósk ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, Baldurs Guðlaugssonar, um að hann færi í leyfi og ég tel það happ að hafa fengið reyndan mann, fyrrverandi ríkisskattstjóra og skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu um langt árabil, til að hlaupa í skarðið. Indriði H. Þorláksson stendur ábyrgur fyrir sínum skrifum og sínum sjónarmiðum sem hann hefur lýst á heimasíðu sinni og svarar fyrir það sjálfur. Fjármálaráðherra svarar hins vegar fyrir ráðuneytið og ber ábyrgð á því sem þar gerist eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti sem fyrrverandi ráðherra.

Um efni þess máls sem hv. þingmaður tekur hér upp liggur það hins vegar fyrir og er rækilega rökstutt af ýmsum sem það hafa skoðað, hagfræðingar og aðrir slíkir, og verður ekki um deilt að nettóarðsemi af veltu álfyrirtækja í eigu erlendra aðila sem eftir verður í hagkerfinu er lágt hlutfall. Það sést augljóslega t.d. þegar nettóarðurinn sem eftir verður í íslenska hagkerfinu í veltu álfyrirtækja er metinn af stærðargráðunni 30–35% eða þar um bil. Þetta hafa margir hagfræðingar staðfest með niðurstöðum sínum. Þetta leiðir af þeirri einföldu staðreynd að aðföng sem flutt eru inn í landið eru dýr og síðan rennur arðurinn af starfseminni út úr landinu aftur til erlends eiganda. Fjárfestingar vegna viðkomandi verkefna, t.d. virkjanir sem selja þeim raforku, eru yfirleitt fjármagnaðar með erlendum lánum þannig að á afskriftatíma virkjananna rennur stór hluti raforkuteknanna einnig úr landi í formi afborgana af þessum lánum. Dæmið lagast að sjálfsögðu þegar þær fjárfestingar hafa verið greiddar upp og þá verður meira af arðinum eftir í landinu. Um þetta á ekki að þurfa mikið að deila.

Þó er það þannig, því miður, að aldrei hefur farið fram vönduð arðsemisgreining á þessu eins og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur þó ítrekað lagt til við íslensk stjórnvöld að gert verði. Það er aldrei að vita nema núverandi fjármálaráðherra komi því máli í farveg.