136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

olíuleit á Skjálfanda.

[10:40]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra. Ég ætla ekki að mæra hann í dag jafnmikið og ég gerði í gær þó að hann eigi það skilið í sjálfu sér, en það þarf ekki að kveða góða vísu dag eftir dag.

Ég er með spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra um olíuleit á Skjálfanda, hvort eitthvað hafi verið hugað að því að rannsaka svæðið á Skjálfanda og í Flatey. Þar var á sínum tíma borað eftir olíu að ég best veit, en hvaða rannsóknargögn eru til um olíuleit og boranir á Skjálfanda eða í Flatey á Skjálfanda? Það væri fróðlegt að vita hvort menn væru að huga eitthvað að þessum málum í iðnaðarráðuneytinu því að þrátt fyrir að búið sé að bjóða út olíuleit á Drekasvæðinu svokallaða þá er það töluvert langt úti í hafi og verður væntanlega mjög dýrt að ná þar upp olíu á miklu dýpi. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér hvort ekki væri full ástæða til að skoða það að láta rannsaka svæði sem er nær landi. Það væri fróðlegt að vita hvort einhver gögn væru til um það, rannsóknargögn frá fyrri tímum.