136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

búvörusamningurinn.

[10:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra sýni töluvert meiri áhuga á hagsmunum landbúnaðarins en fyrri ráðherra virtist gera. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu bænda, sérstaklega í ljósi þess að þær aðstæður sem við erum að takast á við núna í efnahagslífinu sýna okkur hversu mikilvægt það er að við getum framleitt mat innan lands. Ég held að við höfum öll uppgötvað á síðustu vikum og mánuðum hvað orðið fæðuöryggi þýðir í raun og veru.

Ég mundi líka gjarnan vilja heyra hvort hæstv. ráðherra hafi hugmyndir um leiðir til að auka sjálfbærni í landbúnaði. Flokkur hans hefur talað mjög mikið fyrir sjálfbærni og þá varðandi hugmyndir um nýja orkugjafa sem ættu að geta nýst bændum.

Ég hef líka mikinn áhuga á að heyra hvernig hæstv. ráðherra hyggst tækla nýja matvælalöggjöf og koma í veg fyrir að það verði opnað algjörlega fyrir frjálst flæði ótryggra matvæla til landsins. Ég hefði enn fremur mikinn áhuga að heyra hvort hæstv. ráðherra hyggst eitthvað eiga í samstarfi við iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) um samtengingu matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu og þá náttúrlega nýrra orkugjafa.