136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

Icesave-deilan.

[11:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í aðalatriðum eru þessi mál á þeim stað stödd sem þau voru við stjórnarskipti. Ný ríkisstjórn hefur að sjálfsögðu rætt þetta mál og við höfum fjallað sérstaklega um það, ég, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Ég hef átt einn fund með sendiherra Breta þar sem farið var yfir stöðuna í málinu og hann óskaði eftir að ná sambandi við nýja ríkisstjórn. Það er verið að huga að því hvernig aðkoma okkar að samningaviðræðum og framhaldi málsins verður skipulögð. Þar hefur vissulega komið við sögu, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi eða spurði um, að efla þá erlendu ráðgjöf eða þátttöku sem við styðjumst við í þessum efnum. Það er reyndar þannig að sérfróðir erlendir hafa komið að því að aðstoða íslensk stjórnvöld, bæði lögfræðiskrifstofa í Brussel og lögfræðiskrifstofa í London hafa verið íslenskum stjórnvöldum til ráðuneytis í þessum efnum.

Varðandi það hvað verður um eignirnar og kreppuna í Bretlandi er augljóst mál að það bætir ekki úr skák að þar skuli áframhaldandi og miklir erfiðleikar vera. Að sjálfsögðu er maður uggandi um það hvernig þeim eignum, sem vonandi verða þá að lokum til staðar í einhverjum mæli, upp í þennan hrikalega reikning reiðir af. Það kann líka að hafa áhrif á það hvernig og hvenær mögulega einhverjar slíkar eignir verða seljanlegar á einhverjum viðráðanlegum kjörum, þ.e. þetta kann líka að hafa áhrif á það hversu langt tímabil við þurfum að bíða áður en einhverjar eignir geta farið að seljast upp í þetta á einhverjum viðráðanlegum kjörum og ekki á hreinu brunaútsöluverði. Staðan er snúin eins og allir vita, þetta er að sjálfsögðu eitt af allra mikilvægustu og örlagaríkustu málum sem við Íslendingar stöndum einfaldlega frammi fyrir nú um stundir.