136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að hafa með rökum skipt um skoðun frá því fyrir nokkrum árum og er það fagnaðarefni. Sömuleiðis vil ég þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir hversu skjótt hún hefur brugðist við. Það var mælt fyrir málinu í fyrradag, í gær var fundur í nefndinni og málið er tekið til afgreiðslu kl. 13.30 í dag. Svo vill til að það gerist svo að segja undir vökulu auga utanríkisráðherra Albaníu sem stendur í galleríinu fyrir ofan okkur og fylgist með umræðunum.

Hv. þingmaður drap á mál sem sjálfsagt var að rannsaka við meðferð málsins. Það var gert af hálfu Atlantshafsbandalagsins og liggur ljóst fyrir að í Króatíu og Albaníu hefur orðið mjög sterk lýðræðisþróun.

Hv. þingmaður drap á sérstök mál sem tengdust Króatíu. Það sem út af stóð í því efni var að finna og draga fyrir dóm ákveðinn mann sem talinn var uppvís að stríðsglæpum. Króatar héldu því fram allan tímann að hann væri ekki að finna í Króatíu og það reyndist rétt vera. Hann fannst um síðir á Spáni og var dreginn fyrir lög og dóm. Þá var sá ásteytingarsteinn úr vegi sorfinn.

Það liggur fyrir að Albanía hefur á síðustu árum undirbúið sig mjög rækilega fyrir inngönguna og af því að hv. þingmaður talaði um lýðræðisþróunina þá eru kosningar í Albaníu eftir fjóra mánuði. Albanar eru líka að ráðast í ákveðnar lýðræðisumbætur og eru bæði að breyta kosningalögum sínum og stjórnarskrá til að uppfylla ákveðnar forsendur sem lágu fyrir og ljóst var að umsóknarþjóðir þyrftu að uppfylla. Sömuleiðis hefur orðið mikil breyting í Albaníu hvað varðar lög og reglur. T.d. hefur komið fram að búið er að uppræta alls konar glæpagengi sem voru ákaflega sterk þar um hríð. Mörg hundruð glæpagengi í Tírana og Albaníu eru ekki lengur til og nokkur þúsund einstaklingar sem þeim tengdust hafa verið færðir undir lög og rétt.

Sömuleiðis blasir við að Albanía er ríki í töluvert örri efnahagslegri þróun. Þar hefur miklum fjármunum verið varið til að styrkja innri gerð ríkisins. Eitt af því sem ég ræddi í morgun við utanríkisráðherra Albaníu er samstarf okkar og þeirra varðandi uppbyggingu vatnsaflsorkuvera. Fyrir liggur að fullur hugur er af hálfu okkar beggja að vinna saman að því. Þegar er fyrirtæki í Albaníu sem starfar að þessu.

Það sem skiptir líka máli fyrir okkur er að þetta eru tvær smáþjóðir. Ég er þeirrar skoðunar að þessi öld tilheyri smáþjóðunum. Síðustu aldir hafa meira og minna verið undirlagðar áhrifum stórþjóðanna en við sjáum hins vegar — bæði sýna rannsóknir það og við finnum það á eigin skinni — að smáþjóðum sem vinna saman tekst alltaf að verja hagsmuni sína og þess vegna er mjög skynsamlegt frá sjónarhóli íslenskrar utanríkisstefnu að leggja grunn að samstarfi við þjóðir sem eru okkur landfræðilega fjarlægar eins og Albaníu og Króatíu. Þetta eru litlar þjóðir sem við eigum að reyna að vera samferða, þrátt fyrir ólíka hagsmuni og ólíka landfræðilega legu, og stuðla að því að hagsmunir þeirra nái fram að ganga vegna þess að þær munu til endurgjalds stuðla að hagsmunum okkar þegar á þarf að halda. Ég tel því að með þeim gerningi okkar hér að flýta samþykkt ályktunartillögunnar til að greiða för þessara ríkja inn í Atlantshafsbandalagið virðum við í fyrsta lagi, eins og formaður utanríkismálanefndar lagði ríka áherslu á í fyrradag, sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða. Máli skiptir fyrir smáþjóðir að skýrt liggi fyrir að sá réttur sé virtur.

Í öðru lagi eflum við tengsl sem í framtíðinni geta orðið okkur mikilvæg. Smáþjóð eins og Ísland á að rækta slík tengsl miklu fremur en að dansa eftir hljóðpípu hinna stóru þjóða. Máli skiptir að við bindum trúss okkar við litlu þjóðirnar í þessum heimi.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. utanríkismálanefnd aftur fyrir skjóta afgreiðslu og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir málefnalega ræðu.