136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega erfitt að koma hingað upp og vera ekki bara sammála öllu því eða mestu af því sem hv. þingmaður sagði. Að sjálfsögðu búum við í lýðræðisríki. Við búum við þingræði og við verðum að virða það.

Ég vil hins vegar draga það fram að m.a. Albanar, sem hafa staðið fyrir umfangsmiklum breytingum, m.a. á stjórnskipun sinni, hafa tekið sér dágóðan tíma í það. Þess vegna skiptir miklu máli, og ég tek undir með hv. þingmanni, að skoða hlutverk Alþingis. Við eigum að efla og styðja enn frekar við Alþingi og það höfum við gert, m.a. á síðustu missirum, undir forustu fyrrverandi forseta þingsins, Sturlu Böðvarssonar. Við höfum ýtt undir mikilvægi þingsins og hlut þingmanna hefur verið ýtt upp og hampað gegn hlut ráðherra. Við eigum að halda áfram á þeirri braut.

En við megum ekki flana að neinu þegar kemur að stjórnskipuninni. Við erum í megindráttum sammála ákveðnum breytingum á stjórnskipuninni en við verðum að vinna hlutina eins og við höfum gert fram til þessa. Við höfum breytt stjórnskipuninni nokkrum sinnum, þrisvar síðan 1991. Við höfum gert það í samkomulagi flokkanna og farið eftir þeim leikreglum (JBjarn: Ekki aldeilis.) sem stjórnskipunin hefur sett fram.

Við sjálfstæðismenn munum ekki láta okkar eftir liggja þegar kemur að því að ræða um breytingar á stjórnskipuninni, en við viljum að sömu reglur séu viðhafðar, þ.e. aðkoma allra flokka. Ekki þannig að við komum, einn flokkur, síðastur að málinu þegar búið er að afgreiða það af hálfu allra annarra flokka. Það er þá nýlunda í vinnubrögðum á þingi. Mér þykir miður ef allir stjórnmálaflokkar koma ekki að umræðum um stjórnskipunina alveg frá byrjun.