136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei heyrt svona rökflækjur áður á ævi minni, held ég. Hv. þingmaður talar um að það sé einhver flaustursgangur að ætla sér að breyta stjórnarskrá með hætti sem hennar eigin flokkur hefur samþykkt. Hennar eigin flokkur samþykkti það bara ekki, hann hafði frumkvæði að því í stjórnarskrárnefnd þar sem ég sat með þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þegar málið kom á dagskrá. Hann hafði frumkvæði að endanlegri gerð málsins. Hann hafði frumkvæðið að því að málið var lagt í frumvarpsbúning. Hver var það svo sem lagði málið fram hér á þingi? Það var m.a. Sjálfstæðisflokkurinn. Varla er hægt að kalla það flaustursgang. Varla er hægt að kalla það að Sjálfstæðisflokkurinn komi að vinnu málsins þegar henni er lokið. Sjálfstæðisflokkurinn hafði það tiltekna mál algerlega á sinni hendi og í sinni kjöltu. Þannig að það er með engu móti hægt að tala með þessum hætti.

Annaðhvort er fólk samkvæmt sjálfu sér eða ekki. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins verður þá að vera samkvæm sjálfri sér, þegar hún lýsir því hér yfir tvisvar á tveimur vikum, að hún vilji styðja ríkisstjórnina eða Alþingi eftir atvikum til góðra verka, þá getum við reynt að grafast fyrir um það hver skilgreiningin á góðum verkum er. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hlýtur að fallast á það að frumvarp sem er búið til með þessum hætti, og er að öllu leyti hugmyndalegt og ágætt afsprengi forustumanna Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálefnum, hlýtur að falla undir góð verk. Ef hún kemst að annarri niðurstöðu held ég að þau orð sem hún hafði um pólitískt flaustur og tækifærismennsku snúist beint að henni sjálfri.

Þetta er afstaða mín í þessu máli, frú forseti, þó að það sé alls ótengt því máli sem við ræddum áðan. Stundum tekur umræðan sérkennilega spretti. Þetta var góður sprettur hjá hv. varaformanni Sjálfstæðisflokksins, en hún komst ekki í mark. Hún nam staðar langt fyrir aftan þann stað sem flokkur hennar lagði upp frá.