136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum hafa þessa hluti algerlega á hreinu. Það þýðir ekki bara að taka eitt málefni sem hv. þingmaður vill breyta og tala um það. Hv. þingmaður er að tala um mörg málefni sem hann vill breyta í stjórnarskránni. (Gripið fram í.)

Það var eitt atriði sem var samþykkt og það var hvernig við ætlum að breyta stjórnarskránni. Um það var samkomulag. Önnur atriði — og mér finnst merkilegt að átta sig á því hér í þingsalnum að Samfylkingin, með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar, ætlar að lauma inn öðrum grundvallarbreytingum á stjórnarskránni í krafti þess að samkomulag varð um eitt atriði, um það hvernig breyta eigi stjórnarskránni. Samfylkingin ætlar að lauma öðrum grundvallarbreytingum á stjórnarskránni í gegn, þ.e. varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og varðandi fullveldisákvæðin og varðandi það hvernig sameignin eigi að vera á auðlindum landsins. Þessu ætlar Samfylkingin að lauma í gegn á síðustu metrunum. Þess vegna segjum við: Skoðum stjórnarskrána betur. Vöndum til verka. Látum breiða fylkingu manna úr öllum flokkum koma að því að breyta stjórnarskránni. Flönum ekki að neinu.

Við erum í megindráttum sammála um þessi atriði. Það þýðir ekki að vera í einhverjum pólitískum leik, einhverju orðaskaki til þess ætluðu að snúa út úr fyrir fólki, fyrir þingmönnum. Við hæstv. utanríkisráðherra erum sammála um margt og við eigum að vera sammála um að það á að vanda til verka þegar kemur að stjórnarskránni. Svo einfalt er það.