136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frumvarpi sem ég lagði fram á Alþingi 10. nóvember á síðasta ári eða fyrir rúmum þremur mánuðum. Frumvarpið fjallar um tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Áður en ég vík að efni málsins vil ég vekja athygli á því að nú eru að nálgast 100 dagar síðan málið var lagt fram og það tekur þennan tíma að fá það tekið fyrir til að mæla fyrir því og koma því í þinglega meðferð. Kannski er það enn frekar áberandi í því ljósi að málið er lagt fram vegna erfiðrar stöðu sem skapaðist skyndilega hjá heimilum landsmanna eftir hrun bankanna í október og það þarf að bregðast hratt við til að gera fólki kleift að ráða við sínar skuldbindingar. Þessar ástæður kalla enn frekar á svör við því hvers vegna þingið getur ekki unnið hraðar en svo að það taki hart nær 100 daga að fá málið inn á dagskrá þingsins og tekið til umræðu. Ég er ekki að segja að óvenjuleg meðferð sé á þessu máli. Ég er frekar að segja að þetta sé venjulegur gangur á þingmannamálum. En mér finnst þetta ekki gott fyrirkomulag hjá þinginu og finnst ástæða til að breyta því. Ég hef svo sem talað fyrir því bæði hér úr þessum ræðustóli og eins á öðrum vettvangi innan þingsins að menn breyttu þingsköpunum þannig að hægt væri að koma málum miklu fyrr til 1. umr. og þaðan til meðferðar í þingnefndum þar sem meginvinnan við málið fer fram. Ég held að þingheimur verði að taka á þessu ekki bara vegna þessa tiltekna málefnis sem frumvarpið tekur á heldur vegna almennrar framlagningar þingmála þingmanna. Það er algerlega óásættanlegt að mál sem þingmenn hafa lagt vinnu í að semja eða fengið aðstoð við að semja skuli bíða mánuðum saman áður en þau komast til umræðu.

Ég vildi undirstrika þetta, virðulegi forseti, vekja athygli á þessu, kalla eftir því að þingheimur sameinist um að breyta þingsköpum þannig að unnt sé að mæla fyrir málum miklu fyrr en nú er. Það kann að þýða að þingmenn verði að vera tilbúnir til að sætta sig við minni tíma til að mæla fyrir málum og minni tíma til umræðu. En það er allt í lagi að mínu viti ef það verður til þess að málin komast til meðferðar í þinginu og verða tekin til umfjöllunar við úrlausn vanda sem þingið er að glíma við. Þetta vildi ég árétta, virðulegi forseti, áður en ég vík að frumvarpinu af því að mér finnst sláandi í þessu máli einmitt þessi skortur hjá þinginu að hafa greiða leið fyrir framlagningu mála í þinginu til 1. umr.

Frumvarpið er samið og lagt fram til að bregðast við vanda sem varð mjög ljós eftir hrun bankanna í október. Ég vil lesa úr greinargerðinni sem er best til þess fallin að skýra innihald málsins í sem fæstum orðum. En áður en ég hef lesturinn á greinargerð, með leyfi forseta, vil ég geta þess að segja má að fjögur efnisatriði séu í málinu.

Í fyrsta lagi er lagt til að innlendir lánveitendur létti greiðslubyrði lána sem einstaklingar hafa og geta ekki staðið lengur í skilum við vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í efnahagsmálum þjóðarinnar. Í öðru lagi tekur frumvarpið til allra skulda einstaklinga. Í þriðja lagi styrkir frumvarpið samningsstöðu lántakandans gagnvart lánastofnunum með því að takmarka heimild til nauðungarsölu á fasteign og til að takmarka heimild til gjaldþrotaskipta af búi skuldara. Í fjórða lagi er lánastofnunum gefinn kostur á að fjármagna greiðslufrestunina með útgáfu skuldabréfa sem ríkissjóður kaupir. Greinargerðin með frumvarpinu er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að innlendir lánveitendur, sem flestir hinna stærstu eru á forræði ríkisins, létti greiðslubyrði lána einstaklinga sem ekki geta staðið í skilum vegna óvæntrar stöðu sem komin er upp í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði er átt við þær aðstæður sem leiddu til þess að íslenska ríkið tók yfir þrjá umsvifamestu banka landsins á grundvelli laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Í kjölfarið hafa skuldir einstaklinga hér á landi vaxið hratt, ekki síst þær sem eru í erlendri mynt, og eignir rýrnað mikið. Við það bætist að margir hafa orðið fyrir atvinnumissi sem gerir þeim, eins og sakir standa, erfitt með að efna skuldbindingar sínar. Brýna samfélagslega nauðsyn ber til þess að stemma stigu við yfirvofandi hættu á fjöldagjaldþrotum einstaklinga og hættu á að fólk missi samastað sinn vegna þessara sérstöku aðstæðna. Gert er ráð fyrir að lögin sæti endurskoðun enda um ráðstöfun að ræða sem í eðli sínu er tímabundin.

Frumvarpið tekur til allra skulda einstaklinga. Almennt má gera ráð fyrir að þær skuldir teljist til neytendalána, sbr. lög nr. 121/1994, en undir lögin falla m.a. fasteignalán og lán til heimilisrekstrar. Hins vegar þykir ekki ástæða til að einskorða gildissvið frumvarpsins við neytendalán enda hefur til sumra skulda verið stofnað í öðrum tilgangi eins og þegar einstaklingar hafa undirgengist persónulega ábyrgð fyrir þriðja aðila. Viðskiptaráðherra getur sett reglur um afmörkun á gildissviði laganna, verði frumvarpið að lögum. Ráðherranum er einnig veitt heimild til að setja reglur um verklag lánastofnana við að létta greiðslubyrði enda má ljóst vera að skuldasamsetning einstaklinga getur verið mismunandi. Nauðsynlegt er að hlutaðeigandi lánastofnanir eigi með sér samstarf um að koma málum lántaka í það horf að hann eigi raunhæfa möguleika á að standa við skuldbindingar sínar og að honum og fjölskyldu hans verði tryggð lágmarksframfærsla. Forsenda þessa er þó ætíð að skuldari leggi fram ítarlegar og trúverðugar upplýsingar um skulda- og eignastöðu og önnur atriði sem máli skipta.

Til greina kemur að ráðherra beiti sér fyrir því að settar séu forgangsreglur sem segja til um í hvaða röð frysta skuli greiðslur miðað við tegund lána. Ætla má að húsnæðislán leggi einna mestar byrðar á lántakendur og því getur verið eðlilegt að frysta greiðslur af þeim áður en hugað er að öðrum lánum. Gert er ráð fyrir að frestun greiðslna geti að hámarki staðið yfir í fimm ár og er þá höfð hliðsjón af tímalengd greiðsluaðlögunar í frumvarpi sem Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi félagsmálaráðherra,“ — stendur hér í greinargerðinni og það var svo þegar frumvarpið var lagt fram en ráðherrann er núna hæstv. forsætisráðherra — „lagði fram ásamt fleirum á árunum 1998–2007.

Í frumvarpinu er lánastofnunum gefinn kostur á að fjármagna greiðslufrestun með útgáfu skuldabréfs sem ríkissjóður kaupir og einnig er lagt til að Íbúðalánasjóður beiti sér fyrir yfirtöku húsnæðislána. Þessi ákvæði eru í anda meðalhófsreglu að því leyti sem frysting lána skerðir eignarréttinn.

Loks miða ákvæði frumvarpsins að því að styrkja samningsstöðu lántaka gagnvart hlutaðeigandi lánastofnunum með því að takmarka heimild til nauðungarsölu á fasteign þar sem lántaki á heimili sitt eða sá aðili sem lánað hefur honum veð og takmarka heimild til gjaldþrotaskipta á búi lántaka. Heimildir þessar verða bundnar því skilyrði að ógjaldfærni verði ekki rakin til sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði sem þýðir að þeim verður ekki viðkomið gagnvart lántaka sem flest bendir til að hefði haldið áfram að efna skuldbindingar sínar í eðlilegu árferði.

Frumvarp þetta er byggt á frumvarpi frá árinu 1992 (116. löggjafarþingi) sem flutningsmaður lagði fram ásamt Svavari Gestssyni, sbr. fylgiskjal. Fjallar það um greiðslufrest á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika.“

Þannig hljóðar greinargerðin, virðulegi forseti, og síðan fylgir með sem fylgiskjal þetta gamla frumvarp frá 1992 sem lagt var fram til að mæta sams konar vanda sem upp var kominn þó af öðrum ástæðum væri og auðvitað mun umfangsminni þá heldur en vandinn er nú. En eðli vandans er svipað og úrræðin sem þá voru lögð til af minni hálfu og fyrrverandi hv. þm. Svavars Gestssonar eru í raun þau sömu núna og við byggðum á fyrir 16 árum.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að lokum að ríkisstjórnin lagði fram viku seinna en ég lagði mitt frumvarp fram frumvarp um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem var tekið til umræðu samdægurs og hefur verið afgreitt sem lög. Það var, má segja, svar ríkisstjórnarinnar við þeim vanda sem frumvarpið tekur á. Munurinn á frumvarpi ríkisstjórnarinnar þáverandi sem nú reyndar er orðið að lögum og frumvarpinu sem ég flyt er sá að það nær til allra skulda í mínu tilviki og það nær til þess að takmarka heimild til nauðungarsölu og heimild til gjaldþrotaskipta á búi þannig að einstaklingarnir eru betur varðir í því frumvarpi sem ég flyt en í því frumvarpi sem þáverandi ríkisstjórn flutti og hefur verið afgreitt sem lög frá Alþingi. Ég tel því að úrræðin sem er að finna í frumvarpinu eigi enn við, að enn sé þörf á því að breyta gildandi lögum í þá veru sem lagt er til í frumvarpinu og gera lántakendum mörgum hverjum sem eru mjög skuldsettir og hafa lent í vandræðum vegna falls bankanna kost á að fá það skjól sem frumvarpið veitir þeim til að komast í gegnum sína erfiðleika og greiða sínar skuldir á nokkrum árum. Allt að fimm ára skjól er veitt í þessu frumvarpi sem ég flyt. Þessi efnisatriði eiga því enn þá við og enn þá tel ég fulla þörf á því að Alþingi taki málið til umræðu og afgreiðslu og fallist á þá tillögu sem hér er lögð til. Ég vona að það komi ekki upp í þessu máli neinar deilur um höfundarrétt eða að það hafi áhrif á vilja þingmanna og ríkisstjórnar til að líta á þessa tillögu hver flutningsmaður er. Ég vænti þess að menn taki efnislega afstöðu til þess sem er lagt til í frumvarpinu.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að málið gangi til 2. umr. og líklega hv. félags- og tryggingamálanefndar. Forseti leiðréttir mig ef ég er ekki að hitta á rétta nefnd. En ég held að það sé þessi nefnd sem eigi að fá málið til umfjöllunar og legg það til, virðulegi forseti.