136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það sem fram kom í ræðu hennar. Varðandi nefndina sem ætti að fá málið til meðferðar gæti ég alveg fallist á það. Það eru rök fyrir því að málið fari til allsherjarnefndar í athugun með öðrum frumvörpum sem taka að nokkru leyti á sama viðfangsefni. Ég vil biðja virðulegan forseta að taka það til athugunar og það væri þá meinalaust af minni hálfu. Ef forseti telur það að athuguðu máli eðlilegast að málið fari til allsherjarnefndar mundi ég alveg fallast á það.

Hvað varðar kostnað af frumvarpinu legg ég ekki til að skuldir verði afskrifaðar. Ég hef ekki viljað stíga það skref að leggja til að skuldir verði afskrifaðar eða verðtrygging afnumin eða skert. Ég held að það sé óframkvæmanlegt mál. Ég tel að þeir sem tekið hafa fjárhæðir að láni eigi að borga þær til baka þannig að það væri verið að færa fjármagn í stórum stíl á milli einstaklinga í þjóðfélaginu og þjóðfélagshópa ef menn breyttu þessum skilmálum á lánsfé.

Ég vek athygli á því að heimili landsins eiga eignir þrisvar sinnum meiri en skuldirnar. Þegar upp væri staðið væri því verið að færa frá sumum heimilum skuldir yfir á herðar annarra heimila. Ég held því að menn eigi erfitt með að finna sanngirnina í því að taka skuldir af ákveðnum aðilum og færa þær yfir á herðar annarra. Ég er ekki að leggja til að afskrifa skuldir eða fikta í vísitölunni. Hins vegar legg ég til að hægt sé að fresta greiðslum í mörg ár. Til þess að lánastofnanir geti staðið undir því legg ég til að þær selji ríkissjóði skuldabréf þannig að ríkissjóður fjármagnar það tímabil sem kann að myndast (Forseti hringir.) vegna breytinga á greiðsluflæði.