136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:44]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins fá að leggja nokkur orð í þessa umræðu þegar fjallað er um tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Ég vísa þar til umræðu sem fór fram í þinginu í síðustu viku þegar rætt var um skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun þar sem var fjallað um mál sem var af svipuðum toga og þetta. Þar liggja fyrir tillögur um að auðvelda skuli fólki að ná samkomulagi eða fá niðurstöðu án þess að fara í gjaldþrot. Þar var bætt inn bráðabirgðaákvæði í frumvarp ríkisstjórnarinnar um Íbúðalánasjóð og banka í ríkiseigu.

Hér er þetta frumvarp flutt þar sem segir, með leyfi forseta, í 1. gr.:

„Íslenskar lánastofnanir sem stunda útlánastarfsemi hér á landi, þ.m.t. viðskiptabankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, greiðslukortafyrirtæki, tryggingafélög, Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna, skulu að ósk lántaka létta greiðslubyrði lána ef skortur á greiðslugetu er kominn til vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Með lántaka er átt við einstakling. Lánsbyrðinni skal létt þannig að lántaki eigi raunhæfa möguleika á að efna skuldbindingu sína, eftir atvikum með frestun afborgana af höfuðstól, vöxtum eða verðbótum láns að hluta til eða öllu leyti. Veittur frestur skal hafa afmarkaðan gildistíma, þó aldrei lengri en eitt ár í senn og ekki standa lengur en fimm ár.“

Þetta frumvarp er að vísu ekki um að menn séu komnir í þrot heldur er það um að menn skuldi mikið. Síðan er lagt á ráðin um að lánastofnanir geti breytt samkomulagi sínu við lántakendur á þann veg að létta þeim að standa undir greiðslubyrði lánanna.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé spurning hvort sérstaka löggjöf þurfi um þetta þegar ríkið er orðinn eigandi að bönkunum og þegar ríkið rekur Íbúðalánasjóð eins og fram kom í umræðum á þingi í síðustu viku og hv. þm. Pétur H. Blöndal vakti sérstaka athygli á. Þá er það svo að Íbúðalánasjóður hefur heimildir í lögum til þess að koma til móts við þá sem honum skulda. Í neyðarlögunum er rætt um að flytja húsnæðislán frá bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð.

Ég tel að það megi lögjafna frá lögunum um Íbúðalánasjóð yfir í ríkisbankana að þessu leyti ef menn hafa áhuga á því á annað borð að koma til móts við lántakendur innan þess lagaramma sem er núna. Þá tel ég að það séu margir kostir í því efni fyrir Íbúðalánasjóð og bankana einnig í ríkiseign þó að ekki séu sérstök ákvæði í þeirra lögum. Með neyðarlögunum um flutning húsnæðislána úr bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð, með ákvæðunum í lögunum um Íbúðalánasjóð, séu lagaheimildir fyrir hendi til þess að koma til móts við þá sem lögin eða frumvarpið ná til og ekki sé þörf á því að setja þetta bráðabirgðaákvæði.

Það hefur líka komið fram í umræðum síðar að menn telja að verið sé að mismuna með þessu bráðabirgðaákvæði. Ég hef heyrt að fulltrúar Alþýðusambandsins telji að þetta frumvarp og bráðabirgðaákvæðið í frumvarpi ríkisstjórnarinnar feli í sér ákveðna mismunun þar sem aðeins sé verið að tala um banka í ríkiseign og Íbúðalánasjóð. En vissulega geta fleiri skuldarar verið í erfiðri stöðu.

Þess vegna las ég hér upp úr 1. gr., virðulegi forseti, af því að þar telur flutningsmaður upp viðskiptabanka, sparisjóði, lífeyrissjóði, greiðslukortafyrirtæki, tryggingafélög, Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Frumvarpið miðar því að því láta eitt yfir alla ganga án tillits til þess hver er lánveitandinn á meðan frumvarp og bráðabirgðaákvæði í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um greiðsluaðlögun takmarkar þetta við Íbúðalánasjóð og banka í ríkiseign sem ég tel hins vegar, eins og ég sagði, ekki þurfa að setja sérstaklega í lög.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort frumvarpið eigi ekki að fara til meðferðar samhliða frumvarpinu um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun. Að menn eigi að skoða þær hugmyndir sem koma fram í þessu frumvarpi í tengslum við afgreiðslu málanna sem við vorum að ræða í síðustu viku þannig að það sé öruggt að dregin sé upp heildarmynd af þessum atvikum og stöðu sem upp kann að koma og upp er komin varðandi stöðu einstakra skuldara. Ég mæli með því, virðulegi forseti, að litið verði til þessa máls sem hér liggur fyrir og tekur á viðfangsefnum sem eðlilegt er að Alþingi fjalli um við afgreiðslu á þeim frumvörpum sem voru til umræðu í síðustu viku.

Ég tek einnig undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal hér áðan að þær aðstæður sem nú hafa skapast eru ótrúlega erfiðar fyrir marga og nýmæli fyrir þá og nauðsynlegt að létta fólki sem mest leiðina út úr þeim vandræðum eins og kostur er án þess að hrófla við undirstöðum í fjármálakerfi okkar. Nóg hefur nú gengið á samt þótt ekki sé verið að raska sjálfum grundvellinum með skyndiaðgerðum. Skoða á þessar leiðir eins og kom fram í þessu frumvarpi og hafa verið kynntar. Við þurfum að velta fyrir okkur öllum leiðum sem færar eru til þess að auðvelda sem flestum að nálgast þessi erfiðu mál og leysa þau þannig að ekki sé íþyngt um of en án þess að við hróflum við grundvellinum sjálfum. Ég tel að þetta frumvarp geri það ekki og ég tel æskilegt að það sé skoðað í ljósi þeirra frumvarpa sem við ræddum í síðustu viku.