136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:00]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við búum við það, Íslendingar, að ný ríkisstjórn, minnihlutastjórn, er við völd á Íslandi í dag. Þessi minnihlutaríkisstjórn hefur komið með lista yfir mörg mikilvæg mál sem hún ætlar að nýta sér til að bregðast við þeim efnahagsvanda sem við búum við og þetta mál er eitt þeirra.

Það er skondið að hlusta á hv. framsögumann þessa máls í því brimróti sem við eigum við að etja núna. Við höfum orðið þess áskynja að nýja ríkisstjórnin hefur skipt út stjórnum, til að mynda í LÍN þar sem hæstv. menntamálaráðherra skipti um formann, Gunnar I. Birgisson, sem þar hefur átt giftusamleg störf og það má segja um þau skipti að þar hafi lítil þúfa velt stóru hlassi. Sama gildir með Seðlabankann, það er forgangsverkefni að skipta um bankastjórn í Seðlabankanum og það minnir mann óneitanlega á söguna um Davíð og Golíat.

Nú vil ég spyrja hv. þm. Jón Bjarnason: Er það eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar að ná þessu frumvarpi fram? Við áttum aukafund á Alþingi á föstudaginn var og þar var kynnt frumvarp um Seðlabankann eins og við þekkjum. Núna erum við að eyða dýrmætum tíma frá þinginu í að velta því fyrir okkur hver nafngift sparisjóðanna megi vera. Er þetta einn af þeim liðum sem skipta hvað mestu máli í efnahagsmálum okkar? Ég minni á að hv. þm. Jón Bjarnason hefur verið foringi Vinstri grænna í fjárlaganefnd og þess vegna hlýtur þetta að vera þeim mjög brýnt mál.