136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Kjartan Ólafsson er þegar kominn á flótta undan þeim yfirlýsingum sem hann var með hér fyrst. En ég vil árétta það … (Gripið fram í.) Hann baðst ekki afsökunar, nei, á einkavæðingunni og hruni bankanna, heldur gagnrýnir þann sem hér stendur fyrir að halda fram hugsjónum sparisjóðanna. Þegar hv. þingmaður Sunnlendinga kemur svo hér brattur og gagnrýnir það að sé haldið fram kröfu um að staða og hugsjónir sparisjóðanna séu verndaðar og staðinn vörður um þær, þá ég verð fyrir nokkrum vonbrigðum með það. (Gripið fram í: Og félagsleg gildi.) Ég árétta það, alveg sama hvaða skoðun Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þm. Kjartan Ólafsson hafa á sparisjóðum og finnist engu máli skipta hvað þeir heita og hvort þeir séu til eða ekki, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilja standa vörð um sparisjóðina og hugsjónir þeirra og að þeir fái sitt svigrúm í uppbyggingu fjármálakerfis landsins. Fyrir okkur er það ekkert smámál. (Gripið fram í.)