136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:09]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er skoðun mín að ekki hafi verið staðinn vörður um almannaþátt sparisjóðanna í mörgum tilvikum. Hvort þar hafi verið brotin lög skal ég ekkert segja um. (Gripið fram í.) Það stendur ekki að það hafi verið brotin lög heldur að það hafi … (PHB: Brjótast inn í þá.) Já, já. Hvað vill hv. þingmaður kalla það annað þegar sparisjóðirnir, áður en fjármálakerfið hrundi, voru í rauninni yfirteknir að ákveðnum hópi fjármálamanna (Gripið fram í.) og síðan er staða þeirra eins og nú er? Sparisjóður Þingeyinga, sem ekki fór út í þetta hlutabréfabrask, stendur þetta af sér sem ein traustasta fjármálastofnun landsins.

Mér finnst það býsna bratt þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hér, þeir sem leiddu einkavæðingu fjármálageirans, leiddu einkavæðingu og sölu bankanna, leiddu græðgisvæðingu fjármálageirans, (Gripið fram í.) leiddu þetta yfir okkur, þegar þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hér og halda uppi gagnrýni á það að haldið sé á lofti hugsjónum sparisjóðanna þar sem menn líta á fjármálastofnanir sem þjónustustofnanir en ekki fyrst og fremst arðgefandi til eigenda sinna.

Ég hefði heldur viljað að hv. þingmaður hefði útskýrt hvaða árangri Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð í einkavæðingu og hlutafélagavæðingu bankanna og hvenær Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að biðja þjóðina afsökunar. Það væri nær en að finna að því þegar haldið er á lofti hugsjónum sem fjármálaheimurinn hefði betur fylgt eftir á sínum tíma. (Gripið fram í.)