136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki. Ég mundi kalla það frumvarp til laga um rómantík, sveitarómantík, því mikið er talað um hugsjónir. (Gripið fram í.) Ég vildi gjarnan að 1. flutningsmaður væri viðstaddur umræðuna, mér finnst það nauðsynlegt.

(Forseti (KHG): Forseti mun koma þessum tilmælum til 1. flutningsmanns.)

Hann flúði af hólmi, herra forseti, um leið og ég steig í ræðustól — þar kemur hann.

Svo vill til að ég veit nokkuð um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Ég þekki ekki aðra sparisjóði og ég þekki söguna heldur ekki nægilega vel, ég hefði kannski átt að kynna mér hana betur. Mér skilst að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi verið stofnaður 1932 í kjölfar þess að ríkisbankarnir, að tilmælum þáverandi ríkisstjórnar, neituðu að lána til íbúðabygginga í Reykjavík. Það var að mér skilst gert til að hindra flótta úr byggðum landsins til Reykjavíkur. Það átti sem sagt að kæfa það með því að stoppa byggingar í Reykjavík. Þá voru iðnaðarmenn svo uppfullir af hugsjónum að þeir ákváðu að stofna sparisjóð til að geta fengið lán hjá — (Gripið fram í.) það var hugsjónamennska að Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur stofnaði sparisjóð til að ná í sparifé Reykvíkinga til að geta byggt, (Gripið fram í: Fyrir almenning.) fyrir almenning, já. (Gripið fram í: Svo komu einhverjir …) Þeir græddu eitthvað á þessu líka en það skiptir ekki máli. Þetta voru hugsjónir, herra forseti. Ég held — (Gripið fram í.) jú, jú, þetta er bisness eins og hvað annað, herra forseti. Auðvitað er þetta bisness og að sveipa þetta í einhverja sveitarómantík, heiðardalurinn o.s.frv. — (Gripið fram í: … þetta var í Reykjavík.) þetta var í Reykjavík. Já, það getur verið að þessi eini sparisjóður hafi verið illa settur að því leyti að ekki voru hugsjónir á bak við hann en ég held að oft hafi menn verið að leysa praktísk vandamál. Menn voru að skapa fé í viðkomandi sveitarfélagi til að geta framkvæmt og það er ósköp eðlilegt og mér finnst það allt í lagi. En fólk á ekki að blanda einhverjum hugsjónum, hugljómunum eða sveitarómantík í það. Þetta var um stofnun þessa sparisjóðs.

Mjög margir sparisjóðir hafa farið á hausinn. Stundum hafa stofnfjáreigendur tapað fé sínu en stundum hafa sjóðirnir verið hirtir, lengi vel aðallega af Búnaðarbankanum. Hann hirti marga sparisjóði, um allt land, sem fóru á hausinn og stofnfjáreigendur fengu lítið fyrir hlut sinn að mér skilst. (Gripið fram í.) Sumir stofnfjáreigendur voru bara með ábyrgðir sem seinna var breytt í peninga. Vegna spurningar hv. þingmanns kom til mín maður sem sagði að afi sinn hefði lagt umtalsverða peningaupphæð í SPRON. Ég held að það hafi verið hálf árslaun, — ég man ekki alveg hvað hann sagði en það var umtalsverð upphæð — sem rýrnaði eins og allt annað sparifé í landinu og varð að engu. (Gripið fram í.) Af hugsjón, já. Margir stofnfjáreigendur hafa tapað fé sínu, sérstaklega núna eftir að SPRON var hlutafélagavætt. Það þekkja menn, það lækkaði mjög mikið og margir hafa tapað umtalsverðu fé þar, því miður. Þetta var um það.

Varðandi það sem hv. þingmaður leggur til um að óheimilt verði að nota heitið sparisjóður í hlutafjárvæddum sparisjóðum. Nú er búið að hlutafélagavæða einhverja sparisjóði og þeir líta á heitið sem eign. Heitið Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er ákveðin eign og hv. þingmaður leggur hreinlega til að afnema þá eign. Ég tel að þetta brjóti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að segja SPRON að hann megi ekki heita SPRON heldur PRON eða RON, Reykjavíkur og nágrennis. Bankinn má ekki heita Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis heldur Reykjavíkur og nágrennis þannig að hann ætti að heita RON. Ég veit ekki alveg hvernig menn fara að því.

Á heimasíðu SPRON stendur, með leyfi forseta:

„SPRON leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð“ — hafið þið ekki heyrt það einhvern tíma áður? — „og hefur í gegnum tíðina lagt mikla rækt við nærsamfélagið.“ — Hef ég ekki heyrt það líka? Ég heyrði það rétt áðan. — „SPRON skilgreinir samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins út frá þremur meginþáttum, viðskiptavinum, starfsfólki og samfélaginu í heild.“

Þetta hljómar allt saman ljómandi vel. Þetta eru markmið SPRON eftir að það var hlutafélagavætt, eftir að það fór á markað, eftir að hlutaféð þar féll úr 17 niður í 2 eða 3 eða eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Já, við getum farið í gegnum það. Á heimasíðunni eru nefnilega upplýsingar um að SPRON styrki Rauða kross Íslands, með leyfi forseta:

„SPRON er bakhjarl innanlandsátaks Rauða kross Íslands en RKÍ réðst í slíkt átak í fyrsta skipti í október 2007. Samningurinn er tímamótasamningur að því leyti að starfsmenn SPRON eru sjálfboðaliðar Rauða krossins og eru skilgreindir sem varalið ef til neyðarástands kemur.“ — Er þetta ekki ágætisverkefni? Svo er það Borgarleikhúsið. (Gripið fram í.) — „SPRON hefur átt farsælt samstarf við Borgarleikhúsið um árabil og í tilefni af 75 ára afmæli SPRON og 110 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur var undirritaður víðtækur samstarfssamningur sem nær til næstu þriggja ára.“ (Gripið fram í.)

Svo er það Hjálparstarf kirkjunnar. — „SPRON og Hjálparstarf kirkjunnar starfa saman að verkefni þar sem markmiðið er að tryggja aðgang fólks í Malaví að hreinu vatni.“ — Það er ekki nærsamfélag heldur frekar fjarsamfélag. — „Borað verður fyrir 75 brunnum og er verkefnið til þriggja ára.“ — Mér finnst það ekki slæmt, þótt það sé ekki nærsamfélag, heiðardalur eða sveitarómantík, þá finnst mér þetta bara ágætt. Ég er mjög sáttur við þetta.

„SPRON og Ferðafélag Íslands hafa starfað saman um margra ára skeið. Saman hafa SPRON og FÍ staðið að uppbyggingarstarfi við Esjuna þar sem göngustígar hafa verið lagðir og skilti reist.“ — Það vill svo til, herra forseti, að ég hef stundum gengið þarna upp og hlaupið niður og líka upp. Þar eru góðir stígar og vel merktir af SPRON. Þetta er eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa, en um 15 þúsund manns ganga á Esjuna á ári hverju. Er þetta ekki ágætt? Þetta er nærsamfélag. Það er hægt að horfa á Esjuna út um gluggana á SPRON.

„SPRON og Íþróttabandalag Reykjavíkur hafa um nokkurt skeið átt samstarf um Afrekssjóð íþróttamanna.“ — Ég er ekkert voðalega hrifinn af því en það eru kannski einhverjir. — „Auk þess að styrkja afrekssjóð ÍBR hefur SPRON gert samstarfssamninga við tvo framúrskarandi íþróttamenn, Rögnu B. Ingólfsdóttur og Þóreyju Eddu Elísdóttur,“ — sem stökk manna hæst í stangarstökki. Svo er hér eitt verkefni í viðbót. — „SPRON er meðlimur í Vinafélagi ABC barnahjálpar og styrkir einnig starfið með útgáfu á ABC-kortunum. Markmið starfsins er að veita yfirgefnum og umkomulausum börnum varanlega hjálp með því að byggja skóla og styrkja skólagöngu, veita læknishjálp, húsnæði, fæði og klæði eftir því sem þörf er á.“ — Þetta er reyndar ekki hér á landi, þetta er ekki nærsamfélag. Þetta er eitthvert fjarsamfélag, einhvers staðar í þróunarlöndum. En mér finnst það ekkert verra en að grafa brunna.

Herra forseti. Þetta gerist allt eftir hlutafélagavæðingu SPRON. Þetta er öll dirfskan og græðgisvæðingin þannig að ég vil að hv. þingmaður dragi pínulítið úr orðum sínum. Fyrir utan það að ef frumvarp hefði ekki verið samþykkt á hv. Alþingi á sínum tíma gegn samningi sem ég gerði við Kaupþing fyrir hönd SPRON um að selja SPRON til Kaupþings hefði myndast 6 milljarða kr. sjóður. Hann myndaðist aldrei. Þökk sé hv. þingmanni og öðrum hv. þingmönnum. Þeim sjóði var ætlað að dæla út peningum til geðfatlaðra og ýmissa verkefna á sviði mannúðarmála og til menningarmála. Hann gerði það aldrei vegna þess að Alþingi felldi samninginn og sjóðurinn myndaðist aldrei, því miður, herra forseti. Verk mannanna eru misjöfn.

Í þrígang samþykkti Alþingi lög gegn samningum sem ég gerði og þau höfðu þau hörmulegu áhrif að þessi sjóður myndaðist aldrei. Kaupþing hefði borgað í þennan sjóð. Til stóð að Kaupþing setti peninga í sjóðinn í staðinn fyrir að eignast þennan svokallaða almenna sjóð í SPRON. (Gripið fram í.) Nei, það var Kaupþing í síðasta skiptið. Þá hafði Kaupþing keypt Búnaðarbankann, sem líka var ákveðið félagslegt fyrirbæri. Ég man sérstaklega eftir sáðmanninum. (JBjarn: Hvar er Kaupþing núna?) Ja, það er ágætisspurning og ég skal vissulega taka það á mig að bera ábyrgð á vissum göllum í lagasetningu. Ég benti reyndar á gagnkvæmt eignarhald fyrir löngu síðan. Það skildi enginn maður. Ég hélt fund í efnahags- og skattanefnd með Kauphöllinni, Fjármálaeftirlitinu og öllum þessum köppum um gagnkvæmt eignarhald. (Gripið fram í: … frumvarpið …) Það skildi það enginn, það gerðist ekki neitt. (Gripið fram í: Það er ekki rétt hjá þér.) Síðan átti ég fund með Seðlabankanum um krónubréfin sem ég gagnrýndi aftur og aftur og aftur sem og peningamálastefnu Seðlabankans. Hvergi var hlustað á það.

En ég skal bera ábyrgð á því t.d. með Icesave-reikningana, að reglurnar sem við tókum yfir frá Evrópusambandinu voru gallaðar og ég sá það því miður ekki frekar en aðrir þingmenn. Ég tek ábyrgð á því. (Gripið fram í.) En ég get varla borið ábyrgð á Lehman Brothers. Herra forseti, þótt ég sé voldugur og mikill get ég ekki borið ábyrgð á falli Lehman Brothers en það skot steypti íslensku fjármálakerfi um koll, en það fór um koll vegna þess hve valt það var. Það hefði ekki farið um koll ef það hefði ekki verið svona valt. Ef allir sem að málunum komu hefðu gætt að sér, bankastjórarnir, eigendur bankanna — þar á meðal ég — og þeir sem lánuðu þeim, erlendu bankarnir og matsfyrirtækin. Enginn sá hvað þetta fyrirbæri var orðið valt. Ég hélt erindi í nóvember um ástæður þess að fjármálakerfið fór á hausinn. Þær eru margar, ég taldi upp tólf. Ein þeirra er t.d. skortur á sparnaði hjá þjóðinni. Hún sparaði ekki nógu mikið og margir vildu eyða og menn hafa stofnað sparisjóði til að ná í sparifé af því að alls staðar vantar lánsfé. Það er kannski meginástæðan á bak við allar þær hugsjónir og rómantík sem hv. þingmaður talar sífellt um.