136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð upptalning hjá hv. þm. Pétri Blöndal þar sem hann lagði áherslu á að SPRON og þeir sparisjóðir sem hefðu hlutafélagavæðst hefðu staðið sérstaklega vel í því að standa við samfélagslega ábyrgð sína. Ég vil benda á að þeir bankar, sem við getum sagt að hafi raunverulega gert íslensku þjóðina gjaldþrota, virðast hafa staðið sig ágætlega í þessu líka. Ef litið er á heimasíður bankanna má sjá að Landsbanki Íslands, sem við höfum nú fengið 700 milljarða kr. bakreikning frá, var með sérstakan menningarsjóð. Bankinn styrkti líka Sjónarhól, Neistann, Vildarbörn og Kærleikssjóð Sogns. Kaupþing studdi sérstaklega Krabbameinsfélag Íslands, Listasafn Íslands og Íþróttasambandið. Við getum talið endalaust upp. En málið snýst ekkert um það heldur það að sparisjóðir voru hugsaðir til að starfa í ákveðnu samfélagi, á ákveðnum stað og áttu að styðja við fólkið á þeim stað. Með því að breyta sparisjóðaforminu tapa sparisjóðirnir grunninum og hugmyndafræðinni á bak við sig og tengslunum við þá sem þeir eiga einmitt að þjóna. Það er skref sem ég tel að hafi verið mjög skaðlegt fyrir sparisjóðina, enda á sú stofnun, sem var nefnd og við grínuðumst með nafnið á, í miklum erfiðleikum núna. Ég tel að það megi rekja það til þess að þeir sem störfuðu innan hennar töpuðu sýn á hvað þeir áttu raunverulega að gera. Þeir áttu að þjónusta samfélagið en ekki standa í milljarðaviðskiptum við útlönd.