136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg rétt og við getum verið sammála um það hv. þm. Jón Bjarnason og ég að í íslensku fjármálakerfi hefur margt farið úrskeiðis og margt farið á annan veg en við væntum. Um það þarf ekki að vera í vafa. Fyrir því eru margar ástæður sem ekki er hægt að fara út í hér en verða auðvitað greindar, bæði formlega á næstu mánuðum og óformlega, og ábyggilega á næstu árum og áratugum. Ég held hins vegar að það tengist ekki með neinum sérstökum hætti því sem hér er verið ræða hér, þ.e. stöðu sparisjóðanna. Ég held að í raun og veru leiði það umræðuna á villigötur að tengja tiltekin rekstrarform við heiðarleika með einhverjum sérstökum hætti, eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerði ítrekað í ræðu sinni og ég sé fulla ástæðu til að gera athugasemdir við. Rekstrarform eru auðvitað mismunandi, við höfum hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sparisjóði, sjálfseignarstofnanir og ýmiss konar form á rekstri. Ég get því ekki séð og mér finnst afar hæpið þegar hv. þingmaður reynir að gera sum þessara félagsforma tortryggileg en önnur tengir hann sérstaklega við heiðarleika. Mér finnst það ekki heiðarlegur málflutningur.