136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:52]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að halda í orðið heiðarleiki, ekki síst í þeirri umræðu sem nú fer fram og í því uppgjöri sem verður að fara fram á fortíðinni, því miður. Ég held að orðið „heiðarleiki“ sé þar mikilvægt og líka „félagshyggja“ og „samhjálp“ og hvernig megi drepa þessa græðgi sem hefur viðgengist á undanförnum missirum og árum í dróma og helst að ná henni niður. Fjármálakerfið hefur að mínu viti orðið fórnarlamb í því.

Varðandi sparisjóðina, því við tölum afmarkað um þá hér, þá er í mínum huga hugtakið og heitið „sparisjóður“ tákn fyrir ákveðin gildi, ákveðið form, eignarform og rekstrarform á þjónustustofnun í fjármálalífinu sem hefur um margt og víða gengið vel. Þar eru enn þá öflugar stofnanir á því sviði, sem betur fer, þótt kannski sé erfitt að tala um að þær séu öflugar núna en engu að síður hafa margar þeirra staðið af sér erfiðleikana. Aðrar hafa lent á skjön og hlið, ekki hvað síst þær sem hafa farið að leika hlutafélagabanka án þess að vera það, sem hefur ekki orðið þeim til bóta, ég legg áherslu á það. Sparisjóður heitir sparisjóður á sínum grunngildum. Hlutafélagabanki heitir hlutafélagabanki á sínum grunngildum sem þar eru, þau eru ekki eins. Hins vegar þarf að lagfæra og heldur betur að taka til og endurskoða alla lagaumgerðina hvað þetta varðar en sparisjóðirnir eiga rétt á sinni sérstöðu.