136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hægt að taka undir lokaorð hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Sparisjóðir eiga rétt á sinni sérstöðu. Sparisjóðir eiga rétt á því að vera til en ég tel að það sé mikilvægt að í rekstrarumhverfi þeirra og þeirri löggjöf sem um þá gildir sé svigrúm þannig að þeir hafi tækifæri til að laga sig að breyttum aðstæðum.

Til að við hv. þm. Jón Bjarnason ljúkum þessari umræðu í mestu vinsemd þá tek ég undir ákveðna þætti í orðum hans, sérstaklega sem snúa að ýmsum gildum sem mikilvægt er að menn hafi í huga í fjármálastarfsemi og í viðskiptum almennt og hefur kannski skort nokkuð á á allra síðustu árum. Það eru gildi eins og heiðarleiki, ábyrgð, varfærni, framsýni og fyrirhyggja. Þetta eru allt saman gildi sem við þurfum að reyna að stuðla að að verði aftur hafin til vegs og virðingar í fjármálakerfinu sem og annars staðar í viðskiptalífinu en ég held að þetta snúist ekkert um nafngiftir einstakra fyrirtækja.