136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir orð hv. þingmanns, um heiðarleika og ábyrgð og ég vil reyndar halda á lofti félagshyggjunni og samhjálpinni og mun ítrekað gera það.

Ég tel mikilvægt við endurskipulagningu á fjármálakerfinu og stöðu sparisjóðanna og með aðkomu ríkisins að mörgum þeim sjóðum sem ekki fá starfað nema ríkið komi með beinum hætti að — og af því að hv. þingmaður nefndi Sparisjóðabankann þá held ég að líka mætti huga að því út á hvaða brautir hann fór upp á síðkastið — en engu að síður þarf, og þar er ég sammála hv. þingmanni, lagaumgjörð í kringum sparisjóðina að vera þannig að þeir fái bæði starfað sem sjálfstæðar einingar, sparisjóðir á grunni hugsjóna sinna og með tengsl við umhverfi og nærumhverfi eins og þeir eru byggðir upp en líka að þeir fái lagalegt svigrúm til eðlilegs samstarfs. Þeir þurfa að geta byggt upp nauðsynlegan bakhjarl sem þarf að vera að baki sparisjóðanna eins og annarra fjármálastofnana og það þarf að gera þeim það kleift en jafnframt verði haldið utan um þau grunngildi sem sparisjóðirnir standa fyrir og þeir eiga þá að heita sparisjóðir.