136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:58]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu og það er rétt sem hefur komið fram að víða hefur verið komið við. Í rauninni fór umræðan langt út fyrir það sem kveðið er á um í frumvarpinu sem slíku en það er svo sem ekkert nýtt að það gerist á hv. Alþingi.

Frumvarpið gengur í raun eingöngu út á að þeir sparisjóðir sem er breytt í hlutafélög geti ekki notað þetta heiti áfram, að vera sparisjóðir. Hv. þingmaður hefur fært rök fyrir því hvers vegna hann er þeirrar skoðunar að svo eigi að vera.

Nú vil ég taka það fram að það var í minni tíð sem viðskiptaráðherra sem þetta ákvæði var sett í lög að sparisjóðir gátu breytt starfsemi sinni í hlutafélagarekstur. Ástæða þess var náttúrlega sú að það voru miklar breytingar á fjármálamarkaði í framhaldi af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og sölu bankanna. Lagabreytingin eða réttara sagt frumvarpið sem unnið var í viðskiptaráðuneytinu og síðan samþykkt á hv. Alþingi, var unnið í fullri samvinnu við sparisjóðina í landinu. Það þótti mikilvægt að gefa sparisjóðunum færi á því að breyta rekstrinum með þessum hætti vegna þess að það þótti mikilvægt að þeir gætu haldið áfram rekstri. Ég ítreka að ég tel það mikilvægt og ég tel reyndar eins og fór fyrir bönkunum að það hafi verið gríðarlega mikils virði að við vorum þó með þetta sparisjóðanet í landinu.

Ég ætla ekki að taka beint afstöðu til þessarar tillögu hv. þingmanns og hv. þingmanna Vinstri grænna. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekkert stórmál út af fyrir sig en ég hef kannski athugasemdir við margt í sambandi við það sem hv. þingmaður hefur sagt í umræðunni og get komið að því síðar.