136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:06]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að skiptast á skoðunum við hæstv. forsætisráðherra og fleiri þingmenn um efnahagsmálin eins og þau standa núna. Það er vissulega mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna um þessar mundir, eins og oft áður, að glíma við þau. Oft var þörf en nú er nauðsyn að taka þau mál réttum tökum.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki haft langan tíma til að setja mark sitt á efnahagsmálin í landinu og ástæðulaust er að amast við öllu sem frá henni hefur komið í þeim efnum. En ég tel ástæðu til að draga fram nokkur atriði sem ég tel að skipti máli í sambandi við efnahagsframvinduna í landinu á næstunni.

Við vitum öll að horfurnar eru dökkar hvað varðar þjóðhagsstærðirnar eins og glöggt kemur fram í nýrri efnahagsspá Alþýðusambands Íslands sem er í stærstu atriðum í samræmi við nýjustu spá fjármálaráðuneytisins frá 20. janúar 2009.

Við blasir að yfirstandandi ár verður landsmönnum öllum erfitt. Mikið fall er í þjóðartekjum og kaupmætti, einkaneyslu og fjárfestingu. Atvinnuleysi verður meira en verið hefur í mörg ár. Þó er jákvætt að verðbólga mun á næstu mánuðum ganga hratt niður og stýrivextir jafnframt og enn fremur er ljóst að mikill vöruskiptahalli hefur snúist í góðan afgang og þar af leiðandi eru horfur á því að gengi krónunnar geti enn styrkst allnokkuð.

Ef haldið verður fast við efnahagsáætlun þá sem fyrri ríkisstjórn samdi um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, í mikilli óþökk hæstv. núverandi fjármálaráðherra og flokksfélaga hans, má gera ráð fyrir að spár um lækkandi verðbólgu og vexti gangi hratt og greiðlega eftir og að unnt verði að slaka á þeim gjaldeyrishöftum sem nauðsynlegt var að koma tímabundið á í nóvembermánuði.

Fyrsta spurningin sem vaknar í þessu sambandi er sú hvort ríkisstjórnin ætli sér ekki örugglega að fylgja þeirri stefnu sem fyrri ríkisstjórn markaði varðandi samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og tryggja eftir föngum framgang umræddrar efnahagsáætlunar eins og reyndar má ætla af lestri verkefnaskrár ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að fá fram hvernig ríkisstjórnin stendur að undirbúningi þess mats sem fram undan er í þessum mánuði með sjóðnum á stöðu mála varðandi umrædda áætlun. Hver er staðan varðandi ríkisfjármálin fyrir næsta ár og hvaða áætlanir liggja fyrir varðandi tímabilið fram til 2012? Allir vita að brýnt er að þær áætlanir liggi fyrir sem fyrst. Standi ríkisstjórnin við fyrirætlanir fyrri stjórnar í þessum efnum er engu að kvíða en frekari lánafyrirgreiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er háð þessu endurmati nú í febrúar og sama er að segja um lánafyrirgreiðslu frá nágrannalöndum okkar. Hér er þess vegna afar mikið í húfi en það er auðvitað vandamál að það er vitað að stjórnarflokkarnir tveir hafa í grunninn mjög ólíka afstöðu og sýn til samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Á bak við hina stóru þjóðhagslegu mynd og þær þjóðhagsstærðir sem ég hef dregið upp er síðan atvinnulífið sjálft og staða einstakra fyrirtækja sem almenningur og heimilin í landinu eiga allt sitt undir hvað varðar sköpun verðmæta og tekjumyndun. Til þess að atvinnulífið geti starfað eðlilega þarf það að njóta hefðbundinnar þjónustu hjá bönkum landsins sem lent hafa í þeim miklu þrengingum sem við öll þekkjum. Þess vegna er lykilatriði að vel takist til um endurreisn þeirra og má segja að ásamt lækkun verðbólgu og vaxta sé þetta, þ.e. endurreisn bankanna, mikilvægasta atriðið á sviði efnahagsmála um þessar mundir. Komist nýju bankarnir á bærilega starfhæfan grundvöll mun það strax hafa jákvæð áhrif út um allt þjóðfélagið. Liður í því er að sjálfsögðu að tryggja yfirstjórn þeirra og starfsfólki vinnufrið við þau mörgu og erfiðu verkefni sem við er að fást. Þess vegna er mjög miður og raunar ótrúlegt að nýja ríkisstjórnin skyldi láta það verða eitt sitt fyrsta verk að stugga við formönnum bankaráða Nýja Kaupþings og Nýja Glitnis með þeim afleiðingum að þeir hafa nú sagt af sér. Þetta er þeim mun óskiljanlegra þegar þess er gætt að bankaráð allra ríkisbankanna þriggja voru skipuð í góðu samkomulagi allra flokka á Alþingi og þáverandi stjórnarandstöðu. Veittur var ríkari atbeini að ráðunum en þingstyrkur sagði til um og naut Vinstri hreyfingin – grænt framboð þess sérstaklega. Á því ástandi sem nú er upp komið í bankaráðum Kaupþings og Glitnis ber ríkisstjórnin alla ábyrgð, einmitt nú þegar fátt er mikilvægara en að afstýra öllu klúðri í tengslum við bankana.

Fyrri ríkisstjórn, herra forseti, hafði með samþykki Alþingis undirbúið endurfjármögnun bankanna með 385 milljarða kr. eiginfjárframlagi sem innt verður af hendi þegar efnahagsreikningur nýju bankanna liggur fyrir. Ég sem forsætisráðherra fékk einnig sænskan sérfræðing, Mats Josefsson, sem m.a. var starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að vinna að endurreisn bankakerfisins og gera tillögur í því efni. Það er ánægjulegt að fyrstu tillögur hans voru kynntar í gær. Þar er margt athyglisvert að finna þótt fæst af því sé nýtt af nálinni. Hugmynd um eignaumsýslufélög á vegum bankanna var t.d. kynnt í yfirlýsingu síðustu ríkisstjórnar 2. desember sl. og til umræðu hefur verið frá því í haust að stofna einnig slíkt félag á vegum ríkisins.

Í svokallaðri verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin muni setja bönkunum útlánamarkmið fyrir árið 2009 til að örva hagkerfið. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þetta og biðja hana að útskýra það nánar og hvernig hugmyndir af þessu tagi koma heim og saman við þau sjónarmið að ekki beri að hafa pólitísk afskipti af útlánum bankanna.

Nefndin sem hinn sænski sérfræðingur stýrir nú, um endurreisn fjármálakerfisins, hefur verið að störfum frá því síðasta haust þó að hann hafi ekki komið til fastra starfa fyrr en í desembermánuði. Þessi nefnd hefur gegnt lykilhlutverki í stjórnkerfinu varðandi samræmingu innan hins opinbera kerfis. Nefndin laut forustu ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu en annar lykilmaður í nefndinni var ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu. Þessir tveir menn höfðu fullkomna yfirsýn yfir alla þætti þeirra flóknu mála sem upp komu eftir hrun bankanna og lögðu nótt við dag í gríðarlega vandasömum störfum. Ég tel það hörmulegt og fullkomlega ómaklegt að þeim skuli nú hafa verið vikið til hliðar og óskiljanlegt hvað fyrir ríkisstjórninni vakir með slíkri ráðstöfun.

Herra forseti. Við núverandi aðstæður skiptir miklu máli að mönnum fatist ekki flugið í efnahagsstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn mun að sjálfsögðu styðja ríkisstjórnina þegar hún er á réttri braut, eins og t.d. hvað varðar öll þau mál sem undirbúin voru í fyrri ríkisstjórn og eru nú kynnt eins og þau væru glæný af teikniborði hinnar nýju ríkisstjórnar. Við höfum lagt fram okkar eigin frumvörp um tvö slík mál sem voru tilbúin fyrir stjórnarslitin, það eru breytingar á gjaldþrotalögunum og til að greiða fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðar. Við munum styðja önnur þau mál sem ríkisstjórnin kann að flytja og til heilla horfa í efnahagsmálum. Ég verð að viðurkenna að ég óttast að mikilvægum atriðum á því sviði og á sviði atvinnu- og efnahagsmála almennt kunni að verða drepið á dreif með fyrirætlunum um að ráðstafa á næstu vikum miklu af tíma þingsins í stjórnarskrárbreytingar og breytingar á kosningalögum sem fyrirsjáanlega verða mjög tímafrekar.

Ég vil að endingu endurtaka það sem ég sagði í máli mínu á mánudaginn að ég óska ríkisstjórninni að sjálfsögðu heilla í störfum sínum. Ég vona að okkur gangi öllum vel við að stýra þjóðarskútunni í gegnum hinn mikla efnahagsvanda sem fram undan er. Sumt af því sem gert hefur verið á þeim fáu dögum sem ríkisstjórnin hefur starfað boðar ekki gott og hef ég drepið á nokkur atriði í því sambandi í máli mínu. En við munum sem ábyrgur stjórnarandstöðuflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, leggja okkar af mörkum til að leysa þann mikla vanda sem við er að fást hér á Íslandi. Það mun ekki standa upp á okkur hvað það varðar og við munum vera fús til samstarfs við ríkisstjórnina þegar það á við, bæði í þessum sal en einnig fyrir utan hann, á fundum og í samtölum eftir því sem eftir kann að verða falast.