136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:39]
Horfa

Jón Magnússon (U):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hv. þm. Geir H. Haarde fyrir að vekja máls á þessum atriðum varðandi efnahagsmál. Ég tel líka í framhaldi af því ástæðu til að vekja athygli á því að í viðtalsþætti í BBC í morgun gerði hv. þm. Geir H. Haarde grein fyrir því að hann hafi ekki rætt við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, eftir bankahrunið sem mér finnst þó vera forgangsatriði að forsætisráðherra geri.

Ég vil brýna það fyrir hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún gangi nú í það að eyða a.m.k. einu langlínusímtali á hæstv. forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, til að fá úr því skorið hvernig á því stóð að Bretar beittu íslensku þjóðina hryðjuverkalögunum á sínum tíma. En það er eitt af því sem hlýtur að vera spurningin um hvernig við högum málum okkar og hvort við eigum möguleika á því að sækja hugsanlegar skaðabætur í hendur Breta vegna þeirrar fólskulegu aðfarar sem Bretar gerðu að hagsmunum Íslendinga hvað þetta varðar. Mér finnst þetta vera forgangsatriði.

Ég verð að segja það — ég hef að vísu stuttan tíma — en mér finnst ég vera staddur á sama leiksviði og áður, þess vegna í október, sömu leikarar en það eru hlutverkaskipti. En það vantar á að hlutirnir séu gerðir, það vantar á að stýrivextir séu lækkaðir, það vantar á að greitt sé úr vanda smáfyrirtækjanna, það vantar á að greitt sé úr vanda einstaklingsfyrirtækjanna. Í dag las ég að Félag fasteignasala, Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri gera kröfur um að það beri að færa niður höfuðstól verðtryggðra lána og setja ný lög um íbúðalán eins og ég hef verið að flytja tillögur um á Alþingi frá því að ég settist hér inn. Þetta eru forgangsatriðin sem verður að taka á til að tryggja hagsmuni einstaklinganna og til að tryggja hagsmuni smáfyrirtækjanna. Það eru þau sem skipta máli og eru fyrst og fremst undirstaðan og forsenda þess að hér þrífist kröftugt athafnalíf. (Forseti hringir.) Stórfyrirtækjunum getum við ekki bjargað, það verða að koma nýir aðilar þar inn.