136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er á engan hátt nýmæli fyrir okkur Íslendinga að glíma við erfiðar efnahagsaðstæður þótt meðbyr hafi verið í efnahagslegu tilliti um langt árabil. Reynslan hefur sýnt okkur að með því að ganga hreint til verks, fresta ekki að óþörfu að takast á við erfið mál og með skýrri sýn á framtíðina er hægt á tiltölulega skömmum tíma að snúa vörn í sókn. Efnahagsstefnan sem mótuð var eftir hrun bankakerfisins og unnið er eftir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lagði ákveðinn grunn að þeirri vinnu sem fram undan er.

Í meginatriðum er ekki ágreiningur um þá stefnu þótt tekist hafi verið á um hana í upphafi en hún er að efni til þríþætt: Stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði kemur þar fyrst. Þrátt fyrir þau gjaldeyrishöft sem nú búum við og að skiptar skoðanir hafi verið um leiðir í því efni verður ekki annað sagt en með því að stöðva fall krónunnar hafi náðst afar mikilvægur árangur. Afleiðingar frekara falls krónunnar hefðu verið skelfilegar fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu. Nú bendir flest til þess að létta megi á þeim höftum áður en langt um líður en ég vil taka undir með hæstv. fjármálaráðherra að vaxtalækkun á að vera í forgangi.

Í annan stað byggir efnahagsstefnan á endurreisn fjármálakerfisins. Engum dylst hve mikilvægt það er að fjármálakerfið komist að nýju í starfhæft ástand en það eru mikil vonbrigði að okkur hafi ekki enn tekist að koma saman stofnefnahagsreikningi hinna nýju banka. Skýrt yfirlit yfir efnahag þeirra er ein meginforsenda þess að við getum leitt til lykta umræðuna um stuðning við atvinnulífið í landinu og aðstoð við skuldsett heimili. Þetta er því algjört grundvallaratriði í allri okkar vinnu. Í gær kom fram skýrsla frá samræmingarnefnd ríkisstjórnarinnar og ég fagna því en ég vil um leið lýsa vissum vonbrigðum með efnisinnihald skýrslunnar. Þar er ekkert að finna um hvar þetta endurreisnarstarf fjármálakerfisins er statt, ekki eitt orð og maður spyr sig: Hvað er það sem hefur tafið ferlið jafnmikið og raun ber vitni? Í hverju lýsir vandinn sér? (MÁ: Seg þú okkur.) (Fjmrh.: Í hvað fóru fjórir mánuðir?) Er það verðmatið sjálft eða ágreiningur við kröfuhafa um uppgjörið á milli gömlu og nýju bankanna? Er mögulegt að kröfuhafarnir vilji koma að eignarhaldi á nýju bönkunum eins og mjög hefur verið í umræðunni og sumir virðast hafa áhuga á eða liggur fyrir ákvörðun um að ríkið muni fara að fullu með eignarhald á öllum bönkunum frá og með stofnun þeirra? Það hefði verið heppilegt að á þetta hefði verið drepið í skýrslu samræmingarnefndarinnar. Ég vil ekki segja annað en að þingið þarf að vera betur upplýst en nú er um þessi efnisatriði.

Í skýrslu nefndarinnar er teflt fram tillögu um stofnun eignasýslufélags til að styðja við endurreisn stærri félaga og endurskipulagningu og björgun verðmæta þeirra félaga sem rak í þrot. Margt bendir til að þetta kunni að vera skynsamleg leið í ákveðnum tilvikum en allt vekur þetta hjá manni ótta um að innan skamms verði ríkið að nýju alltumlykjandi, ekki bara í bankastarfseminni heldur jafnframt í stórum hluta atvinnustarfseminnar í landinu. Fyrir liggur að kröfuhafar gömlu bankanna hafa ekki eingöngu hagsmuni og áhuga heldur líka þekkingu og fjármagn til að leysa þessi verkefni að stórum hluta og þar með ríkið undan því að koma með eiginfjárframlag í bæði bankana og slíkt eignasýslufélag. Það er brýn nauðsyn að fá stefnuna í þessu efni og stöðuna eftir mánaðalangar viðræður við kröfuhafana upp á borðið.

Í þriðja lagi hefur efnahagsstefnan snúist um að koma saman stefnu í ríkisfjármálum fyrir komandi ár. Ný ríkisstjórn hefur ekki gefið skýrt til kynna hvaða áherslur verði lagðar í þessu efni að öðru leyti en því að umræða um hátekjuskatt og frekari beitingu skattkerfisins til tekjujöfnunar hefur komist á skrið að nýju og hagræðingaraðgerðum verið frestað. Það væri óábyrgt að útiloka allar skattahækkanir við þær erfiðu aðstæður sem við okkur blasa en hugmyndir um beitingu skattkerfisins til frekari tekjujöfnunar vekja ugg því að við þurfum að leggja allt kapp á að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum sem og öðrum sem snerta ríkisfjármálin dragi ekki úr athafnavilja og þrótti í hagkerfinu almennt, heldur feli frekar í sér örvun og hvata. Og til að draga úr (Forseti hringir.) ríkisútgjöldum mun jafnframt þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og það er engum greiði gerður með að láta (Forseti hringir.) þær bíða of lengi. Það er reyndar engin einföld aðferð (Forseti hringir.) sem bíður okkar í efnahagsmálum, allt mun orka tvímælis þá gert er.