136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:46]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og í sjálfu sér ætla ég ekki að staldra lengi við ýmsar hagstærðir. Hins vegar ætla ég rétt að draga það fram, sem kom fram í byrjun umræðunnar, að fyrir liggur samkvæmt þjóðhagsspá sem kom út um miðjan janúar og spánni sem ASÍ birti í morgun að við horfum bæði fram á aukið atvinnuleysi á árinu og það að stýrivextir munu lækka og verðbólgan fara niður. Það er auðvitað það leiðarljós sem allir hafa unnið að hér á þingi, óháð flokkum. Ég vil líka segja í þessari umræðu, út af því að margir horfa til baka, að við getum kannski horft á að grunngildin hafi staðið í umræðunni, þ.e. framboð, eftirspurn, magn og verð. Það liggur einfaldlega fyrir þegar sagan verður skoðuð að bæði fjármagnsflæðið og fjármagnsflutningarnir miðuðust við framboðs- og eftirspurnarkúrfur hverju sinni.

Þess vegna er afskaplega ánægjulegt að hæstv. viðskipta- og bankamálaráðherra situr undir umræðunni og ég vonast til að hann komi hér fram með skýrslu handa þinginu og lýsi því hvernig hann sjái endurreisn bankakerfisins fyrir sér í ljósi þess sem Mats Josefsson sagði í gær. Það skiptir okkur öll miklu máli að viðskiptaráðuneytið stígi fram, því á síðustu mánuðum höfum við svolítið horft til baka í þeim efnum. Fyrrverandi viðskiptaráðherra var alltaf að takast á við fortíðina í umræðunni þrátt fyrir að jafnágætur hv. þingmaður og Björgvin Sigurðsson hafi unnið fram á við.

Það sem er mikilvægt fyrir okkur er að koma fjármagninu á hreyfingu, atvinnulífið og heimilin haldast í hendur og bankakerfið í dag, ríkisbankarnir þrír, er varfærið. Bankarnir þurfa að stíga fram til að sýna framsýni en varfærnin er mjög mikil í kerfinu í dag. Hlutverk ríkisins er mjög mikilvægt og í sjálfu sér þarf engan að undra það. Þegar ríkið tók við bönkunum í byrjun október tók það við þremur E-hluta fyrirtækjum og um E-hluta fyrirtæki gilda ákveðnar reglur. Þess vegna skiptir máli, alveg óháð því hvort menn heiti Baldur eða Konni, Valur eða Fylkir, að stjórnir bankanna bera mikla ábyrgð á því sem þar fer fram. Það kemur alltaf maður í manns stað. Líkt og fjárlaganefnd minnti á í desember hefur stjórn sem skipuð er í E-hluta fyrirtækjum til að annast rekstur þær skyldur sem forstöðumenn hafa ella. Þetta liggur alveg skýrt fyrir. Þegar við tókum við bönkunum bættust þrjú E-hluta fyrirtæki við og þess vegna ber okkur að ganga fram með rekstur þeirra eins og annarra E-hluta fyrirtækja hjá ríkinu.

Ég vil segja, virðulegur forseti, að við skulum gera okkur grein fyrir því hvert hlutverk ríkisbankanna er á næstu dögum og mánuðum. Það skiptir miklu máli að koma þeim af stað því að atvinnulífið bíður eftir því að ríkisbankarnir fari að vinna á fullri ferð um leið og losnar um fjármagn á markaði. En auðvitað bíðum við öll eftir því, með hliðsjón af því sem ég sagði áðan, að grunngildin haldi, framboð, eftirspurn, magn og verð.

Ég þakka fyrir þessa umræðu og vona að hún verði öllum til góðs.