136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[16:02]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. forsætisráðherra sá ekki ástæðu til að svara einni einustu af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana. Hins vegar sá hún ástæðu til að nýta sér ummæli hins sænska sérfræðings, sem ég réði til starfa, frá því í gær, í pólitískum tilgangi og virtist ætlast til þess að fyrrverandi ríkisstjórn hefði verið búin að hrinda í framkvæmd tillögum sem fyrst sáu dagsins ljós af hálfu þessa manns í gær. Þetta er fáránlegur málflutningur eins og margt sem fram kom í ræðum stjórnarliðanna hér og ég verð að segja að hæstv. núverandi fjármálaráðherra er orðinn býsna hörundsár ef hann kallar umræðu af þessu tagi, eins og hér í dag, ólæti í þingsalnum.

Öðruvísi mér áður brá. Ef einhver flokkur hefur staðið fyrir ólátum hér innan húss og utan er það flokkur hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Orðbragð það sem hann tók sér hér í munn um Sjálfstæðisflokkinn er ekki eftir hafandi. Mér þykir hins vegar miður að hann skuli nota tækifærið í þessum umræðum og kalla ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu, sem er einhver vandaðasti embættismaður í öllu kerfinu, og hefur helgað alla starfsævi sína opinberum störfum, flokksgæðing. Hann gerði það áðan, kallaði ráðuneytisstjórann og aðra þá sem ég hef nefnt til flokksgæðinga.

Ég hlýt að hafna því og það á líka við um aðra menn sem hafa unnið hér af trúmennsku á undanförnum mánuðum og hefur nú verið vikið til hliðar. (Gripið fram í.) Búið var að gefa það til kynna við þá tvo menn sem gegnt hafa bankaráðsformennsku að á aðalfundi bankanna í apríl yrði þar breyting á. Þeir höfðu ekki áhuga á því að starfa áfram við þær aðstæður. Ég gaf hæstv. forsætisráðherra tækifæri til þess á mánudaginn að bregða skildi fyrir þessa menn með því að segja að hún styddi að þeir héldu áfram. Hún ákvað að gera það ekki og því fór sem fór í því máli og er það mjög miður þegar bankarnir og allir starfsmenn þeirra og stjórnendur eru önnum kafnir við að vinna mjög erfið verk. Þetta var ekki það sem mest þurfti á að halda einmitt núna.

Hæstv. forseti. Flest af því sem fram kom í máli forsætisráðherrans var frásögn af þeim málum sem hafa verið í gangi frá því í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Endurreisn bankakerfisins hefur tafist, sagði hún. Skilaði ekki maðurinn sem fenginn var til þess fyrstu skýrslu sinni í gær? Af persónulegum ástæðum kom hann ekki til starfa fyrr en um miðjan janúar. En, alveg eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, var talið ómetanlegt að fá hann í þetta verk og aðrir erlendir sérfræðingar, sem nú er talað um að fá hingað og bæta við þá sem verið hafa, höfðu líka verið ráðgerðir á vegum fyrri stjórnar.

Lánamálin, sem hæstv. ráðherra vék að, hafa tafist vegna þess að lánardrottnarnir vildu bíða eftir því að fyrstu endurskoðun á áætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lyki. Ég fagna því ef hægt er að fá botn í þau mál sem allra fyrst. Það er auðvitað mjög mikilvægt.

Hæstv. forsætisráðherra talaði töluvert um seinagang, ákvörðunarfælni o.s.frv. Ég get nefnt ágætt dæmi um ákvörðunarfælni og seinagang sem Samfylkingin ber ábyrgð á. Hinn 1. febrúar tók til starfa hinn sérstaki saksóknari varðandi brot sem kunna að hafa verið framin í aðdraganda bankahrunsins. Samfylkingin tafði það mál í tvo mánuði. Þessi tiltekni embættismaður hefði getað hafið störf 1. desember ef ekki hefði verið fyrir ákvörðunarfælni og seinagang Samfylkingarinnar.