136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarpið.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því að forsætisráðuneytið hafi farið rangt með upplýsingar og trúnaðarupplýsingar sem okkur höfðu borist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég veit ekki betur en að um helgina hafi borist beiðni frá einum þingmanni þar sem beðið er um öll gögn sem við höfum uppi í þessu máli og þau verða auðvitað öll send til viðkomandi þingmanns. Ég hygg að í þeim gögnum komi fram að í hinum upphaflegu athugasemdum eða tæknilegu ábendingum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi okkur kom fram að óskað væri eftir trúnaði um þær upplýsingar sem þar voru sendar. Ég mótmæli því að forsætisráðuneytið hafi með einhverjum hætti farið rangt með í þessu máli eða í því sem það hefur upplýst viðskiptanefnd um, í ráðuneytinu er allt opið sem hægt er að hafa opið. En þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn biður okkur um trúnað um þær upplýsingar sem þeir sendu fyrst um tæknilegar ábendingar, en eftir að við höfðum sent þeim frumvarpið þegar búið var að þýða það á ensku þá báðu þeir um trúnað um þær upplýsingar en sögðu aftur á móti að þeir mundu senda aðra umsögn sem við gætum birt opinberlega. Það hefur verið gert og því hefur engu verið leynt í þessu máli.