136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarpið.

[15:09]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Það væri óskandi að þetta mál væri svona vaxið. En ég sendi sjóðnum fyrirspurn og fékk m.a. svar þar sem stendur eftirfarandi: „Hvað varðar seðlabankalögin höfum við einmitt sent stjórnvöldum athugasemdir til bráðabirgða sem við gerum ráð fyrir að komi í endanlegt horf fljótlega. Í samræmi við fastar vinnureglur ganga athugasemdir okkar til stjórnvalda og það er stjórnvalda að ákveða hvort þeim verði dreift til annarra.“

Með öðrum orðum, því er enn haldið fram hér að sjóðurinn hafi beðið um trúnað á þessu. Það stemmir ekki við það sem mér er sagt og sá sem sendi mér þetta er sá sem hefur með Íslandsmálin að gera. Hæstv. ráðherra verður að gera það upp við sig hvað og hvernig á þessu stendur en það verður að birta þessar upphaflegu athugasemdir. Það er lágmarkskrafa eins og málinu er háttað.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um fulltrúa Íslands í sjóðráðinu. Það er kannski vegna þess að hún veit ekki hverjir þeir eru. En aðalfulltrúinn heitir Davíð Oddsson og er seðlabankastjóri og varafulltrúinn heitir Bolli Þór Bollason og er fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Kannski er það einhver skýring á því að það er ekki leitað til þessara manna.