136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ráðningar.

[15:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. 11. desember sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sigurjóns Arnar Þórssonar gegn íslenska ríkinu þar sem verulega var fundið að stjórnsýslu félagsmálaráðuneytisins. Niðurstaðan er sú að ríkissjóður þarf að greiða hátt í 1.200 þúsund kr. vegna axarskafta í stjórnsýslu félagsmálaráðuneytisins. Um er að ræða brottvikningu formanns nefndar fatlaðra úr starfi sínu án þess að hann hafi notið nokkurs andmælaréttar eða að hann hafi getað komið nokkrum rökstuðningi að gagnvart hinu háa ráðuneyti. Endaði það með því að Sigurjón Örn Þórsson varð að leita réttar síns fyrir dómstólum og liggur nú niðurstaðan fyrir.

Hv. þm. Árni Mathiesen hlaut miklar ákúrur frá umboðsmanni Alþingis vegna ráðningar dómara í Héraðsdóm Norðurlands eystra. Menn höfðu stór orð um hvernig þeirri embættisfærslu var háttað. Hér er um það að ræða að dómur fellur í Héraðsdómi Reykjavíkur og er mjög merkilegt að ekki skuli nokkur maður hafa tekið eftir því að þessi dómur hafi fallið.

Mig langar að vitna til bloggsíðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þar sem hún vitnar í hæstv. félagsmálaráðherra á þann veg, með leyfi forseta:

„Ég held, herra forseti, að atburðir síðustu vikna og missira segi okkur ljóslega að það er brotalöm í stjórnsýslu okkar, þar er ekki allt sem vera skyldi. Ábyrgð virðist vera óljós í stjórnsýslunni og hana þarf að skilgreina miklu betur. Stjórnendur sem treyst hefur verið og trúað fyrir stjórnunarstöðum innan stofnana á vegum ríkisins hafa brugðist trausti og trúnaði ...“ Fyrir þau mistök þarf að borga, fyrir þau fjármálalegu axarsköft sem gerð hafa verið.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra að því hvernig hún hyggst bregðast við þessum dómi og hvort hún hafi þegar gripið til aðgerða vegna hans.