136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ráðningar.

[15:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mér finnst þetta svar afskaplega sérkennilegt. Það er greinilegt að málið snýst um að viðkomandi maður er framsóknarmaður. Ég ætla ekki að gera ágreining um að ráðherrann hafi viljað fá aðra trúnaðarmenn í starfið. Ég er að tala um hvernig að þessu var staðið.

Maðurinn fékk ekkert að vita um þetta. Það kemur fram í dómnum að ráðuneytisstjórinn í félagsmálaráðuneytinu taldi víst að formaðurinn yrði látinn vita áður en breytingar yrði gerðar. Ég er að varpa ljósi á stjórnsýsluna í ráðuneytinu, ég er ekki að tala um hvort viðkomandi ráðherra hafi viljað losna við manninn eða ekki. Það var bara ekki rétt gert, hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra verður að viðurkenna að þarna var ekki rétt að málum staðið.

Þegar menn hafa haft þann sið í gegnum tíðina, hafa haft stór orð um hvernig stjórnsýslu í landinu er háttað, þegar slík brotalöm er eins í þessu máli, hlýtur maður að mega spyrja hæstv. ráðherra að þessu og hún viðurkenni það þá. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta mál muni t.d. vera eitthvert innlegg í fyrirhugaða breytingu á ráðherralögunum.