136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

loðnuveiðar.

[15:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Verið er að gera allt sem hægt er og hefur verið gert undanfarna daga til þess að mæla þær slóðir þar sem hugsanlega gæti komið loðna. Það lá skip inni fyrir vestan og beið eftir veðri til þess að mæla þar og hvert skip sem fer í veiðarnar þarf að skila tilteknum dagafjölda í mælingum og við rannsóknir áður en það getur tekið sinn skammt út úr þessum rannsóknarkvóta.

Væri gefinn út kvóti upp á 50 þús. tonn í viðbót miðað við núverandi stöðu mála gæti það þýtt að hrygningarstofninn sem eftir stæði væri kominn niður undir 300 þús. tonn. Sem sagt umtalsvert niður fyrir þau viðmiðunarmörk sem menn hafa sett sér þarna. Er þó deilt um hvort það sé nægjanlegt borð fyrir báru í þeim efnum að miða við 400 þús. tonna markið. Vitað er að þessi árgangur var veikur þannig að mælingarnar núna koma mönnum því miður ekki á óvart og ég held að það væri miklu hættulegri ákvörðun að taka hér óverjandi áhættu. Ég verð því að hryggja hv. þingmann með því að ég hyggst (Forseti hringir.) vera talsmaður ábyrgrar nálgunar í þessum efnum, (Forseti hringir.) svo bölvað — ef ég má segja það, hæstv. forseti — sem mér finnst að geta ekki gefið út veiðiheimildir og hafið frystingu og nýtingu.