136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breyting á niðurgreiðslu lyfjakostnaðar.

[15:35]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um að fylgja eftir vinnu fyrrverandi heilbrigðisráðherra með breytingum á greiðsluþátttöku sjúklinga við kaup á lyfjum. En ég spyr einnig: Hvernig hefði hæstv. ráðherra sem óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu brugðist við ef þessu hefði verið snúið öfugt við?

Ég er með fyrir framan mig reglugerð þessa efnis, um greiðsluþátttöku sjúklinga, sem var undirrituð af þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, 20. janúar síðastliðinn og hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu um margra mánaða skeið. Þessarar staðreyndar lét hæstv. ráðherra ógetið í fréttatilkynningu sinni í gær og á blaðamannafundinum. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum í þessum efnum. En í þessari reglugerð eru öll þau nýmæli sem hæstv. ráðherra kynnti í gær (Forseti hringir.) með örfáum undantekningum.