136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ummæli ráðherra og beiðnir um utandagskrárumræður.

[15:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það er nokkuð sérstakt að hlusta á hæstv. ráðherra ráðast á mig hér úti í sal. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að segja sannleikann um þetta mál. Það liggur fyrir að sú reglugerð sem hann var að kynna og aðgerðir er nokkuð sem hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu mjög lengi, eins og færsla úr dýrari lyfjum í ódýrari og varðandi börn 18 og yngri. Sömuleiðis kom lækkun á smásöluálagningu frá 1. janúar og 1. febrúar á heildsöluálagningu sem hæstv. ráðherra var að skreyta sig með að væri eitthvað sem hann væri búinn að gera. Fleira mætti nefna.

Hæstv. ráðherra fór hamförum yfir því í þinginu fyrir nokkrum vikum hvernig ríkisstjórnin gengi fram í niðurskurði varðandi sjúklingaskatta og annað slíkt. Af hverju í ósköpunum heldur hann því áfram, þegar hann er orðinn ráðherra, (Forseti hringir.) sem hann barðist svo svakalega gegn?